Sagður hafa stungið samfanga sinn 6 sinnum með skærum

08.06.2020 - 11:12
Kvíabryggja
 Mynd: Wikimedia Commons
Karlmaður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás í fangelsi að Kvíabryggju í febrúar síðastliðnum. Hann er sagður hafa stungið samfanga sinn sex sinnum í hægri fót með skærum sem hann hafði tekið í sundur.

Sá sem ráðist var á hlaut þrjú stungusár á utanvert læri, eitt á utanverðan fót og tvö grunn stungusár ofarlega á aftanvert læri.

Hann krefst þess að árásarmaðurinn verði dæmdur til að greiða sér tæpar átta milljónir. Fram kom í fréttum að hann hefði verið fluttur aftur á Kvíabryggju eftir að hann fékk aðhlynningu á heilbrigðisstofnun.

Árásarmaðurinn var hins vegar fluttur í lokað fangelsi og sagði Páll Winkel, fangelsismálastjóri, í samtali við mbl.is að hann fengi ekki að snúa aftur á Kvíabryggju. „Slæm hegðun í afplán­un get­ur haft áhrif á reynslu­lausn, áhrif á heim­ild til vist­un­ar utan fang­elsa og áhrif á all­an fram­gang afplán­un­ar.“

Kvíabryggja er annað af tveimur opnum fangelsum og eru árásir af þessu tagi sjaldgæfar í þeim.

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi