Nýja Sjáland laust við COVID-19

08.06.2020 - 04:47
Mynd með færslu
 Mynd: AP
Ekkert virkt kórónuveirusmit er nú í Nýja Sjálandi, og ekkert smit hefur greinst í 17 daga. Jacinda Ardern, forsætisráðherra, tilkynnti í morgun að öllum hömlum til að hefta útbreiðslu veirunnar sé nú aflétt, nema eftirliti við landamærin. 

Ardern greindi frá þessu á blaðamannafundi og þakkaði Nýsjálendingum fyrir að hafa staðið saman við að vinna bug á veirunni. Innan við 1.500 tilfelli voru greind á Nýja Sjálandi og 22 létu lífið. Ardern sagði samlanda sína þó mega eiga von á því að COVID-19 láti aftur á sér kræla í landinu. 

Ashley Bloomfield, landlæknir í Nýja Sjálandi, segir að sýni verði tekin af öllum þeim sem koma inn fyrir landamæri Nýja Sjálands. Sýni verða tekin tvisvar á tveggja vikna tímabili hefur Guardian eftir honum. Einnig verða starfsmenn við landamæraeftirlit og þeir sem vinna á flugvöllum og í höfnum skimaðir. Eins verður haldið áfram að prófa Nýsjálendinga, með áherslu á þá sem sýna einkenni veirunnar. 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi