Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

„Mýta að við búum alltaf við hreint neysluvatn“

08.06.2020 - 14:58
©Kristinn Ingvarsson

Starfsmannamyndir -  Verkfræði- og Náttúruvísindasvið
 Mynd: Háskóli Íslands
Saurmengun greinist að meðaltali í um 50 vatnsveitum á ári hverju, sem er um 5% af skráðum vatnsveitum landsins. Einnig virðist heilbrigðisyfirvöldum á viðkomandi svæðum oft ekki gert viðvart þegar frávika verður vart í eftirliti.

Þetta eru rannsóknarniðurstöður Maríu J. Gunnarsdóttur, Ásu Atladóttur og Sigurðar M. Garðarssonar sem birtar voru í Læknablaðinu í dag. Bæta þarf vatnsgæði hjá minni vatnsveitum og taka upp fyrirbyggjandi úttektir og hættumat á mengun.

Lélegur frágangur og skortur á viðhaldi helsta orsökin

Alls hafa 15 vatnsbornar hópsýkingar verið skráðar á árunum 1998-2017, allar hjá minni vatnsveitum og sumar á fjölförnum ferðamannastöðum og í sumarhúsabyggðum. Sýkillinn er ýmist campylobacter eða nóróveira, og í einu tilfelli cryptosporidium, sem veldur launsporasýkingu.

Ýmislegt bendir þó til þess að vatnsbornar hópsýkingar séu mun fleiri en þær sem skráðar eru í opinberar skýrslur og þá sérstaklega hjá minni vatnsveitum. Það sé þekkt að aðeins lítill hluti iðrasýkinga sé skráður þar sem fáir leita læknis og skráning á tilfellum skilar sér því ekki inn í opinber skráningarkerfi nema að litlu leyti.

Orsök vatnsborinna hópsýkinga sé lélegur frágangur og skortur á viðhaldi

„Það er mýta að við búum alltaf við hreint neysluvatn, það fer alveg eftir frágangi og viðhaldi á vatnsbólum og vatnsveitukerfinu,“ segir María J. Gunnarsdóttir, sérfræðingur við Háskóla Íslands, í samtali við fréttastofu. Helst sé viðhaldi ábótavant í litlum vatnsveitum víða um landið. Stóru veiturnar séu flestar með gott og reglubundið eftirlit og viðhald.

Allar veitur fyrir að minnsta kosti 50 manns eða tíu rúmmetra notkun á dag eru eftirlitsskyldar og einnig minni veitur ef matvælafyrirtæki er á svæðinu svo sem kúabú eða gistiheimili. „Þær geta því verið að þjóna ansi mörgum ef það er ferðamannasvæði,“ segir María.

Mynd með færslu
 Mynd: Lára Ómarsdóttir
Stærsta hóptilfelli nóróveirusmits sem skráð er var 2004 þegar 150 manns greindust með smit. Líkleg orsök er talin vera að saurmengað vatn hafi farið inn á vatnsveitukerfi í Húsafelli eftir að lögn fór í sundur.

Ríflega 800 vatnsveitur eru eftirlitsskyldar og af þeim eru um 600 litlar, það er fyrir færri en 50 manns. Flestar minni vatnsveitur taka vatn úr uppsprettum en ekki borholum. 

Uppfært 9. júní kl. 11:21 - Í myndatexta var fullyrt að hópsmit árið 2004 mætti rekja til vatnslagnar sem fór í sundur í Húsafelli. Hið rétta er að það er talin vera líklegasta skýringin. 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV