Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mikil söluaukning á fræi vegna kalskemmda

08.06.2020 - 12:26
default
Kalskemmdir á túnum í Hörgársveit Mynd: Björgvin Kolbeinsson - RÚV
Mun meira hefur selst af fræi í ár en vanalega enda þurfa bændur margir hverjir að ráðast í mikla endurrækt vegna kalskemmda í túnum. Sölu- og markaðsstjóri hjá Bústólpa líkir ástandi túna við náttúruhamfarir.

Miklar kalskemmdir eru á túnum á norðaustanverðu landinu og á Austurlandi, mun meiri en í meðalári og margir bændur hafa þurft að vinna upp allt að 40 hektara á meðan aðrir bíða þess að geta hafist handa. Það fylgir því mikil vinna að endurrækta tún og aukin þörf á fræi.

Ekki ennþá skortur

Hanna Dögg Maronsdóttir, sölu- og markaðsstjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Bústólpa, segir fyrirtækið hafa selt um 24% meira af sáðvörum nú miðað við sama tíma og í fyrra og sölunni sé hvergi nærri lokið. „Það er ekki skortur ennþá hjá okkur en við höfum lagt okkur öll fram við að reyna að ná í fræ fyrir bændur“ segir Hanna Dögg. 

Hafa lagt inn auka pöntun

Hún segir enn til grasfræblöndur og vetrarýgresi, einhverjar tegundir séu hins vegar uppseldar og ný pöntun af sumarrýgresi hafi verið gerð fyrir helgi sem skili sér síðar í mánuðinum. Það sé ekki vanalegt og gert til að bregðast við stöðunni. Fræ séu áætluð og pöntuð fljótlega upp úr áramótum til að tryggja birgðir fyrir sumarið. 

Enginn tómhentur heim

Þótt bændur hafi ekki allir fengið það fræ sem þeir óskuðu eftir hafi enginn þurft að fara tómhentur heim. Svipaða sögu er að segja frá Líflandi, samkvæmt upplýsingum þaðan var reynt að eiga meira af einærum tegundum sem bændur nýta í vinnslu kalinna túna. Það sé þó klárt mál að það fái ekki allir þær tegundir sem þeir hefðu kosið.
 

„Við erum allavega að gera okkar besta til að leysa þetta erfiða mál sem að er í rauninni bara ákveðnar náttúruhamfarir fyrir bændurna, að túnin þeirra komi svona upp eftir rosalega erfiðan vetur“ segir Hanna Dögg.