Lögregla rannsakar sölu lambakjöts úr heimaslátrun

08.06.2020 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd: Bjarni Rúnarsson - RÚV
Matvælastofnun hefur óskað eftir lögreglurannsókn vegna meintrar ólöglegrar dreifingar afurða á Norðurlandi. Grunur leikur á að kjötið komi úr heimaslátrun. Meint brot áttu sér stað seinasta vetur og voru vörurnar auglýstar á Facebook.

Tveir einstaklingar búsettir á Norðurlandi eru grunaðir um að hafa auglýst afurðir úr heimaslátrun til sölu. Vörurnar voru auglýstar á Facebook en ekki liggur fyrir hversu mikið magn eða hvers kyns afurðir þeir buðu til sölu.

Bændur mega aðeins stunda heimaslátrun til eigin nota, en ekki setja afurðir heimaslátrunar á markað.  Eigi afurðir að fara á almennan markað, hvort sem það er innanlands eða erlendis er skylt að slátra í löggiltu sláturhúsi og að kjöt sé heilbrigðisskoðað af dýralækni á vegum Matvælastofnunar. Meint brot felst í því að taka til slátrunar sauðfé utan sláturhúss og setja á markað afurðirnar af því fé án þess að það hafi verið heilbrigðisskoðað í samræmi við gildandi löggjöf. 

Samkvæmt upplýsingum frá Matvælastofnun var óskað eftir að gögn um slátrun og vinnslu afurðanna yrði skilað til stofnunarinnar. Þau gögn bárust ekki fyrir tilskilinn tíma og því var farið fram á rannsókn lögreglu á málinu.

Brot á lögum um slátrun og vinnslu sláturafurða getur varðað allt að tveggja ára fangelsi.

bjarnir's picture
Bjarni Rúnarsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi