Höfundur Harry Potter sökuð um fordóma gegn transfólki

Mynd með færslu
 Mynd:

Höfundur Harry Potter sökuð um fordóma gegn transfólki

08.06.2020 - 10:36
Rithöfundurinn J. K. Rowling hefur enn einu sinni reitt fólk til reiði með tístum sem gera lítið úr kynsegin og transfólki. Rowling er auðvitað þekktust fyrir að hafa skrifað bækurnar um galdrastrákinn Harry Potter en síðustu ár hefur hún sömuleiðis verið afar virk í að tjá skoðanir sínar á Twitter.

Um helgina var Rowling harkalega gagnrýnd fyrir tíst þar sem hún hneykslaðist á grein sem fjallaði um jafnari heim fyrir fólk sem fer á blæðingar. Í greininni er fjallað um aðgengi fólks að hreinlætisvörum sem séu líka nauðsynlegar á tímum heimsfaraldurs. Þar kemur sömuleiðis fram að um það bil 1,8 milljón stúlkna, kvenna og kynsegin fólks fer á blæðingar sem hafi ekki stoppað á meðan heimsfaraldurinn gengur yfir.

Kynsegin (e. non-binary) er hugtak sem nær yfir fólk sem skilgreinir kyn sitt utan tvíhyggju kynjakerfisins. Það sem virtist fara fyrir brjóstið á Rowling var einmitt það að talað var um „fólk“ sem fer á blæðingar. „Fólk sem fer á blæðingar. Ég er nokkuð viss um að það var einu sinni til orð fyrir slíkt fólk. Einhver að hjálpa mér. Wumben? Wimpund? Woomud?“ skrifar Rowling og er þar augljóslega að leita að enska orðinu yfir „konur.“

Notendur á Twitter voru fljótir að bregðast við og bentu á að í tísti sínu væri Rowling ekki aðeins að hunsa og gera lítið úr transfólki heldur væri hún líka að gera lítið úr sískynja konum (konum sem upplifa sig þannig að þær tilheyri því kyni sem þeim var úthlutað við fæðingu) sem fara ekki lengur á blæðingar.

Þrátt fyrir ábendingar og gagnrýni bakkaði Rowling ekkert heldur hélt áfram. Hún tísti að ef kyn (e. sex) væri ekki raunverulegt þá væri ekkert til sem heiti að laðast að sama kyni. Ef kyn væri ekki raunverulegt þá væri raunveruleiki kvenna á heimsvísu orðinn að engu. Þá sagðist hún bæði þekkja og elska transfólk en bætti við að það að eyða hugmyndinni um kyn eyði möguleikum margra um að tala á merkingarbæran hátt um líf sitt. 

Í öðru tísti strax í kjölfarið sagði hún svo að það að segja hana hata transfólk fyrir það eitt að trúa því að kyn sé raunverulegt og hafi afleiðingar, væri þvættingur. Hún virði að sjálfsögðu réttindi transfólks til lífs sem sé þægilegt en á sama tíma hafi líf hennar verið mótað af því að vera kona og það geti ekki verið hatursfullt að segja það. 

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Rowling er gagnrýnd fyrir viðhorf sitt gagnvart kynsegin fólki en í desember á síðasta ári stóð hún upp fyrir breska rannsakandanum, Mayu Forstater. Forstater missti vinnu sína í fræðimannahópi (e. think tank) eftir að hafa birt tíst þar sem hún sagði að transkonur gætu ekki breytt líffræðilegu kyni sínu. Hún kærði ákvörðunina og þótti sér vera mismunað fyrir viðhorf sín sem hún hefur látið í ljós oftar en einu sinni á Twitter. 

Forstater tapaði málinu og Rowling gagnrýndi niðurstöðuna í tísti sem þótti fordómafullt gagnvart transfólki. „Klæddu þig eins og þú vilt. Kallaðu þig það sem þú vilt. Sofðu hjá hvaða fullorðnu manneskju sem hefur samþykkt að sofa hjá þér. Lifðu lífinu í friði og öryggi. En að neyða konu úr starfi fyrir að halda því fram að kyn sé raunverulegt?“

Vegna þessara skoðana Rowling hafa margir sagt hana vera TERF, trans-exclusionary radical feminist eða róttækan femínista sem útilokar transfólk. TERF er þannig yfirheiti yfir þá einstaklinga sem segjast vera femínistar en trúa því að transkonur séu ekki alvöru konur og transkarlar séu ekki karlar. Þetta er skoðun margra þrátt fyrir samþykki meðal vísindamanna og heilbrigðisstarfsfólks um gildi kyngervis og mikilvægi þess að virða það

Þessi viðhorf Rowling eru auðvitað áfall fyrir marga aðdáendur Harry Potter sem skilja margir hverjir ekki hvernig konan sem skrifaði bækur um viðurkenningu og skilyrðislausa ást geti verið svona þröngsýn. Konan sem skrifaði um Harry Potter, strákinn sem skildi ekki fordóma samfélagsins gagnvart hálfrisum og varúlfum og tók fólki ávalt opnum örmum (öllum nema kannski Voldemort og drápurunum). Konan sem skrifaði um baráttuna við hið ofurilla, sem var á endanum sigrað með ást, ekki bölvunum eða töfrabrögðum, heldur ást. Einhverjir bentu raunar á að Rowling hefði með sögum sínum alið upp kynslóð sem myndi standa upp gegn fordómum hennar. 

Tímasetning tísta Rowling er þar að auki einstaklega slæm í ljósi þess að baráttan fyrir réttindum svartra stendur nú sem hæst á samfélagsmiðlum og þá er júní mánuður opinber pride mánuður víða í heiminum. Netverjar hafa því margir hvatt til þess að fólk beini réttmætri reiði sinni gagnvart Rowling í eitthvað jákvætt og styðji til að mynd við samtök sem hjálpi svörtu trans fólki. 

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Nýtt ævintýri úr smiðju J.K. Rowling kemur óvænt út

Kvikmyndir

Tilbúin fyrir samkynhneigðan Dumbledore?

Bókmenntir

Biðst afsökunar á að hafa drepið Snape