Grænt ljós á uppbyggingu menningarhúsa á Egilsstöðum

Mynd með færslu
 Mynd: Fljótsdalshérað - Sláturhúsið drög að útlits

Grænt ljós á uppbyggingu menningarhúsa á Egilsstöðum

08.06.2020 - 09:41

Höfundar

Framkvæmdir hefjast við uppbyggingu sviðslistahúss á Egilsstöðum á þessu ári. Landsvirkjun leigir þar aðstöðu undir sýningu og ríkið leggur 300 milljónir í verkefnið.

Uppbygging og stækkun á tveimur menningarhúsum á Egilsstöðum getur hafist á þessu ári eftir að þátttaka Landsvirkjunar í verkefninu komst á hreint. Áætlað er að framkvæmdir við Sláturhúsið og Safnahúsið kosti 400-500 milljónir. Ríkið og Fljótsdalshérað borga uppbygginguna og Landsvirkjun leggur í púkkið; ætlar að taka þátt í sýningu og greiðir leigu tíu ár fram í tímann.

„Þessi áhersla sem við höfum varðandi Sláturhúsið verður fyrst og fremst á sviðslistir. Þar verður svokölluð blackbox útfærsla á efri hæðinni. Á neðri hæðinni erum við að horfa á sýningarrými og þar er aðkoma Landsvirkjunar varðandi sameiginlega sýningu Landsvirkjunar og Fljótsdalshéraðs. Svokallaða Ormsstofu sem er svona samspil samfélags og vistvænnar orku en það á eftir að útfæra það nákvæmlega,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs.

Tíu ára leigusamningur við Landsvirkjun auðveldi sveitarfélaginu að fara í framkvæmdina. „Það er bara mjög þakkarvert að Landsvirkjun er tilbúin að koma að verkinu með þeim hætti.“ Þar sem ekki sé búið að skrifa undir samninginn vill hann ekki gefa upp strax hve há fjárhæð fæst í framkvæmdina frá Landsvirkjun. „En þetta er upphæð sem skiptir máli,“ segir hann.

Þá stendur til að nýta hluta af framlagi ríkisins í að byggja aðra burst við Safnahúsið á Egilsstöðum. Aðspurður um hvort svokallað blackbox leiklistarrými í Sláturhúsinu sé mögulega of lítið til að uppfylla þarfir sviðslista á svæðinu og skipta verulega máli segir hann. „Ég held ekki og það sem við höfum skynjað í rauninni meðal annars frá atvinnuleikhúsunum er þetta muni opna dyrnar gagnvart starfsemi á þeirra vegum hér á svæðinu. Ég held að þetta verði ekki of lítið og þessi útfærsla sem er til það er bara verulega spennandi verkefni.“

Aðspurður um hvort hann haldi að Þjóðleikhúsið muni koma oftar með sýningar og kannski stærri sýningar austur en verið hefur, segir hann. „Ég er bara nokkuð sannfærður um það og það er í samræmi við þau viðbrögð sem ég hef fengið þaðan.“

 

Tengdar fréttir

Austurland

480 milljónir í menningarhús á Egilsstöðum

Austurland

Nýtt menningarhús á Egilsstöðum óraunhæft