Dúxaði í fjölbrautaskólanum með 10 í meðaleinkunn

Mynd: Þorri Þórarinsson / Facebook

Dúxaði í fjölbrautaskólanum með 10 í meðaleinkunn

08.06.2020 - 11:50
Stúdentar víða um land hafa fagnað útskrift síðustu vikur. Fáir geta þó státað af því að dúxa á prófum með meðaleinkuninna 10. Það gerði Þorri Þórarinsson sem útskrifaðist af náttúrufræðibraut Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra á Sauðárkróki fyrir skemmstu. Þorri var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

„Ég myndi segja að þetta sé óendanlegur metnaður fyrir námi, bara hafa stanslausan áhuga til þess að læra og gera betur og alltaf að standa sig eins vel og maður getur,“ segir Þorri þegar hann er spurður hvernig hann fór að því að fá 10 í meðaleinkunn. Þegar Þorri byrjaði í Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra þá var þetta ekki markmiðið í fyrstu.

Fólk er oft sterkt á ákveðnum sviðum en Þorri virðist hins vegar vera jafnvígur yfir allt. Hann segir að honum hafi fundist flest allt, sem kennt var í skólanum, skemmtilegt.

„Þegar maður hefur gaman að hlutunum þá er náttúrulega mjög létt að læra þá.“

Hann segir það einnig mikilvægt að temja sér ákveðna námstækni. „Ef maður er með virkilega góða námstækni þá er hægt að læra nánast hvað sem er.“

Þorri sótti um lífefna- og sameindalíffræði í Háskóla Íslands. „Mér finnst það hljóma ótrúlega spennandi.“ Hann þarf því að flytja til Reykjavíkur í haust sem hann er spenntur fyrir. „Mig hefur lengi langað að prófa að búa í Reykjavík þótt ég haldi að það sé ekkert betra en Skagafjörðurinn. En gaman að prófa eitthvað nýtt.“

Viðtalið við Þorra má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.