COVID-19 herjar líka á heilbrigðisstarfsfólk

08.06.2020 - 17:20
Mynd: Tryggvi Aðalbjörnsson / RÚV
Tölur um COVID-19 smit og dauðsföll meðal heilbrigðisstarfsfólks er eitt af því sem Alþjóða heilbrigðisstofnunin þurfi að kanna og draga lærdóm af, meðal annars til að draga úr smithættu og efla öryggi heilbrigðisstarfsfólks. Upplýsingum um smit í þessum hópi er ekki safnað á Íslandi.

Veiruskelfingin á ítölskum spítölum: að sjá samstarfsfólkið deyja

 Í lok febrúar fylgdist heimurinn með, af nokkurri skelfingu, hvernig COVID-19 veiran breiddist út af ógnar krafti á Norður-Ítalíu. Tíðindakona Spegilsins var þá stödd á Suður-Ítalíu. Ítalskir fjölmiðlar voru undirlagðir af skekjandi veirufréttum að norðan.

Eitt það eftirminnilegasta úr fréttunum þá og jafnframt það átakanlegasta voru viðtöl við heilbrigðisstarfsfólk, sem sagðist vissulega vant því að takast á við líf og dauða í vinnunni. Það væri hluti af starfinu. En það sem enginn var búinn undir var að horfa upp á samstarfsfólk borið út, liðin lík. Það var í hugum flestra það allra allra þungbærasta.

Sömu tilfinningar meðal heilbrigðisstarfsfólks í Bretlandi

Undanfarið hefur Spegillinn heyrt starfsfólk í breska heilbrigðiskerfinu nefna það sama, sem eitt það allra erfiðasta í glímunni við veiruna. Þetta, að sjá á eftir samstarfsfólki í gröfina hefur heilbrigðisstarfsfólk á Vesturlöndum varla þekkt áður og tæplega hugleitt að það gæti gerst í okkar heimshluta.

Veiruálagið og óttinn

Álag á heilbrigðisstarfsfólk í veiruvánni hefur verið ógnarlegt, sama á elli- og hjúkrunarheimilum. Annars vegar vinnuálagið við algjörlega framandi aðstæður, hins vegar óttinn að smitast sjálfur og smita þá hugsanlega sína eigin fjölskyldu af veiru sem svo margt er á huldu um.

Engir íslenskir heilbrigðisstarfsmenn látist vegna COVID en tölum ekki safnað

Hjá Landlæknisembættinu fékk Spegilinn upplýst að sóttvarnarlæknir safni ekki upplýsingum um dánartíðni heilbrigðisstarfsfólks af völdum COVID. Af fréttum að dæma hefur þó enginn heilbrigðisstarfsmaður látist af COVID-veirunni á Íslandi.

WHO mun safna alþjóðlegum tölum um COVID-smit meðal heilbrigðisstarfsfólks

Það eru enn engar alþjóðlegar tölur um hversu margt heilbrigðisstarfsfólk hefur látist í veirufaraldrinum. Í svari við fyrirspurn Spegilsins til Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar segir að stofnunin sé að safna þessum upplýsingum en aðildarlöndin skili ekki skipulega gögnum um efnið.

Smá innsýn í efnið í skýrslum WHO

Stofnunin hefur þó undanfarnar vikur hugað að þessu mikilvæga máli. Í COVID-stöðuskýrslu stofnunarinnar 11. apríl er efnið tekið fyrir, bent á að um ellefu prósent staðfestra veirutilfella á Ítalíu voru meðal heilbrigðisstarfsfólks. Það virtist bæði smitast á vinnustað en einnig úti í samfélaginu, einkum heima fyrir.

Í lok þriðju viku maí voru staðfest COVID-tilfelli í Evrópu og Rússlandi rúmlega tvær milljónir samkvæmt yfirliti Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar. Um tuttugu prósent tilfella voru meðal heilbrigðisstarfsfólks. Í lok maí taldi stofnunin áhyggjusamlega mörg tilfelli í þessum hópi í Afríku.

Enn engar sænskar tölur um COVID-dauðsföll heilbrigðisstarfsfólks

Sænska COVID-19 leiðin er umdeild, nú líka í Svíþjóð. Miklu linari boð og bönn þar en í nágrannalöndunum og dánartalan hlutfallslega mjög há. Sænska Lýðheilsustofnunin, Folkhälsomyndigheten, heldur utan um dánartölur.

Spegillinn spurðist þar fyrir um dauðsföll meðal sænskra heilbrigðisstarfsmanna. Svarið var að stofnunin hefði engar handbærar tölur en von á skýrslu um málið nú í vikunni. Nýjustu sænsku smittölur sýna að helmingur nýrra smita er meðal starfsfólks heilbrigðisstofnana og elli- og hjúkrunarheimila.

Þýskaland: minna smit en víðast, færri dauðsföll heilbrigðisstarfsmanna

Það hefur vakið athygli hvað miklu færri hafa veikst og látist af COVID-veirunni í Þýskalandi en í nágrannalöndunum. Sjö prósent af staðfestum COVID-tilfellum í Þýskalandi eru meðal heilbrigðisstarfsmanna. Tuttugu þýskir heilbrigðisstarfsmenn hafa látist úr veirunni.

Ítalía: há dánartíðni

Á Ítalíu og í Bretlandi hefur framvindan verið öllu dapurlegri. Um miðjan maí höfðu 203 ítalskir heilbrigðisstarfsmenn dáið af veirunni. Fyrir þremur mánuðum var Ítalía veiruvítið til varnaðar; nú er Bretland í þeirri sorglegu stöðu og þessar tölur háar.

Breskar opinberar tölur virðast ekki standast

Opinberar breskar tölur um COVID-dauðsföll meðal heilbrigðisstarfsfólks hafa verið taldar of lágar, voru um fimmtíu um miðjan maí, þegar ýmsir miðlar töldu dauðsföllin yfir 200. Á Nursing Notes, vefsíðu hjúkrunarsamtaka, er talið að í byrjun júní hafi alls 245 úr þessum hópi látist af völdum veirunnar.

Smit á heilbrigðisstofnunum rata greiðlega út í samfélagið

Neil Ferguson er einn helsti farsóttasérfræðingur Breta. Þegar hann sat nýlega fyrir svörum hjá heilbrigðisnefnd breska þingsins benti hann á að einn veirulærdómurinn væri mikilvægi þess að hindra smit á heilbrigðisstofnunum og elliheimilum. Reynslan sýndi að smit þar dreifðist svo greiðlega út í samfélagið.

Breskir læknar andlega þjáðir af COVID-19

Skortur á öryggisbúnaði eins og grímum og hlífðarbúnaði, bæði á sjúkrahúsum og elli- og hjúkrunarheimilum hefur verið viðloðandi vandi í Bretlandi frá upphafi veirufaraldursins. Öryggisbúnaður, sem til dæmis Alþjóða heilbrigðisstofnunin segir lykilatriði til að vernda heilbrigðisstarfsfólk gegn veirusmiti. Skortur á öryggisbúnaði skapar bæði ótta og áhyggjur starfsfólks. Ný könnun bresku læknasamtakanna sýnir að nú glíma rúmlega fjörtíu prósent lækna í Bretlandi við þunglyndi, angist eða aðra andlega kvilla tengda vinnunni.

 

sigrunda's picture
Sigrún Davíðsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi