Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ætla að kanna áhrif túristabáta á lundavarp

08.06.2020 - 15:51
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Árlegt lundarall hófst í gær með ferð í Akurey og Lundey á Faxaflóa. Erpur Snær Hansen, forstöðumaður Náttúrustofu Suðurlands og doktor í líffræði, segir að ábúð í Akurey sé nú 83 prósent, litlu minna en í fyrra þegar hún var 88 prósent. Erpur segir að ef ábúð sé undir 60 prósent þá sé eitthvað slæmt í gangi. Útlitið sé því gott í eyjunum.

Erpur segir að farið sé í tólf byggðir tvisvar á sumri eins og hafi verið gert á hverju ári frá árinu 2010. 

Ný tilraun verður gerð í eyjunum í ár og felst hún í uppsetningu á myndavélum sem ætlað er að mynda túristabáta í lundaskoðun. Erpur segir að hugmyndin sé meðal annars að athuga hvort munur sé á varpárangri milli þessara eyja. Erpur segir að þau séu með heimsóknatíðnina nú þegar. Minna sé farið í Lundey því hún sé lengra frá en Akurey sem er fyrir utan höfnina á leiðinni út á hvalaskoðunarmiðin. „Við ætlum að skoða hvort munur sé á varpárangri miðað við þetta. Ef ekki þá er það fínt svar og menn vita það þá. Það á eftir að koma í ljós.“

Í fyrra mældist ábúð lunda í Vestmannaeyjum betri en hún hafði verið frá upphafi mælinga árið 2007.  Erpur segir að lundarallið endi í Vestmannaeyjum því varpið hefjist seinna fyrir sunnan en fyrir norðan. Þau séu núna á leiðinni austur og fari á morgun í Ingólfshöfða og Papey.  Í júlí verði líklega hægt að sjá heildarmyndina, hversu mikið er af pysjum í eyjum.