Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Trump vill fækka hermönnum í Þýskalandi

07.06.2020 - 00:20
epa08361415 US President Donald J. Trump speaks at the Coronavirus Task Force press briefing at the White House in Washington, DC, USA, 13 April 2020.  EPA-EFE/Yuri Gripas / POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. Mynd: EPA-EFE - ABACA POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur samþykkt að senda hátt í tíu þúsund bandaríska hermenn heim frá herstöðvum í Þýskalandi fyrir haustið. Fjölmiðlar vestanhafs kveðast hafa heimildir fyrir þessu. Ástæða þessa er sögð vera óánægja Trumps með fjárframlög Þjóðverja til Atlantshafsbandalagsins, NATO.

Trump hefur áður viðrað þá skoðun sína að Evrópuríki í NATO eigi ekki að gera ráð fyrir að Bandaríkin beri meirihluta kostnaðar bandalagsins. Samkvæmt Wall Street Journal ætlar Trump að fækka varanlega um 27,5% herafla Bandaríkjanna í Þýskalandi. Varnarmálaráðuneytið verður að samþykkja tillöguna áður en hún tekur gildi. 

Hvíta húsið hefur ekki staðfest fregnirnar. Talsmaður þess sagði Bandaríkin þó halda varnarsamstarfi og öðru samstarfi áfram með Þýskalandi. Þýska utanríkisráðuneytið hefur heldur ekki tjáð sig um málið.