Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þórólfur mælir ekki með notkun á andlitsgrímum

07.06.2020 - 21:07
Mynd með færslu
 Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Engin ástæða er fyrir íslensk yfirvöld að fylgja ráðleggingum Alþjóðaheilbrigðisstofnunnarinnar (WHO) um að fólk noti andlitsgrímur í fjölmenni til að draga úr kórónaveirusmiti. Þetta segir Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir í samtali við fréttastofu. Rök skorti fyrir ákvörðuninni.

Þessi frétt var birt 6. júní 2020. Síðan 31. október er grímuskylda á Íslandi í almenningssamgöngum, í verslunum og annarri þjónustu. Þetta á við alla sem eldri eru en fimm ára. Einnig skal nota andlitsgrímur þar sem ekki er unnt að tryggja 2 metra nálægðartakmörkun, svo sem í heilbrigðisþjónustu, leigubifreiðum og hópbifreiðum. Nánar hér.

 

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin breytti á föstudag fyrri ráðleggingum sínum varðandi notkun á andlitsgrímum til að verjast kórónuveirusmiti. Fram að því hafði stofnunin sagt grímurnar veita falskt öryggi, auk þess sem notkunin gengi á birgðir sem heilbrigðisstarfsfólk þyrfti á að halda.

„Mér finnst þetta vera skrýtnar tillögur miðað við það sem stofnunin lagði til þegar veiran var í vexti,“ segir Þórólfur. Einkennilegt sé að tala gegn grímunotkun þá, en mæla svo með henni þegar faraldurinn sé í rénun. „Það eru engar nýjar röksemdir fyrir að þetta komi að gagni.“

Geta leitt til aukningar smita

„Við höfum séð að andlitsgrímurnar geta leitt til þess að fólk sé ekki að passa sig á öðrum," segir Þórólfur og bendir á að það sjáist vel að fólk sé stöðugt að káfa í grímunum. „Það er síst af öllu að passa sig með gímurnar," útskýrir hann og kveður grímunotkun þannig hugsanlega geta stuðlað að aukningu smita.

Aukinheldur sé nú lítið um smit á Íslandi. Því mæli hann ekki með að aðrir heilbrigðisstarfsfólk sem sinnir sjúkum og þeir sem eru í áhættuhópi, eða með einkenni, séu að nota andlitsgrímur.

Alþjóðaheilbrigðisstofnunin leggur til að allur þorri almennings noti heimatilbúnar grímur þegar verið er í fjölmenni, til að mynda í almenningssamgöngum. „Við höfum sagt að einkennalausir eigi ekki að ganga með grímur.“ segir Þórólfur og kveður það ekki hafa breyst og eigi jafnt við um Íslendinga sem og þá ferðamenn sem hingað koma eftir 15. júní. 

Vottaðar grímur líkt og þær sem heilbrigðisstarfsfólk notar eru orðnar gegndræpar fyrir veirunni  eftir 4-5 tíma. Hvað heimatilbúnar grímur varðar sé Þórólfur hins vegar ómögulegt að segja hvort þær geri nokkuð gagn.
„Þær geta þó mögulega minnkað líkur í einhverjum tilfellum á að einhver sem er með veiruna smiti,“ segir hann.

Vel geti komið til þess að afstaða íslenskra yfirvalda til andlitsgrímunotkunnar breytist, en sú breyting verði þá að byggja á rökum og staðreyndum sem ekki liggja fyrir í dag.