Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Suðurnes fá lægst framlag á hvern íbúa til heilsugæslu

07.06.2020 - 20:32
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Framlög ríkisins til Suðurnesja eru ekki í takt við íbúaþróun. Fólki finnst það því ekki fá þá þjónustu sem það á rétt á frá ríkinu í sínum sveitarfélögum. Margir leita á höfuðborgarsvæðið eftir heilbrigðisþjónustu.

Landsmönnum fjölgaði um tólf prósent frá 2013 til 2019. Íbúafjöldi á Norðurlandi vestra og Vestfjörðum stóð nánast í stað. Lítils háttar fjölgun varð á Austurlandi og Norðurlandi eystra. Á Vesturlandi fjölgaði um rúm átta prósent, tæp þrettán prósent á höfuðborgarsvæðinu og átján á Suðurlandi en langmest fjölgaði íbúum á Suðurnesjum, eða um þrjátíu og eitt prósent. 

Suðurnesjamönnum hefur því fjölgað langt umfram þá eins prósents 1% fjölgun á ári sem ríkið miðar við í áætlunum sínum. „Þannig að við sjáum að það myndast töluvert bil á milli fjárframlaganna sem við þurftum á að halda og þess sem við fengum svo,“ segir Berglind Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Þetta hefur áhrif á ýmsa þjónustu í sveitarfélaginu. Framlög til almennrar löggæslu haldast ekki í hendur við íbúaþróun og Suðurnes fá lægst framlag á hvern íbúa til heilsugæslu. „Þetta hefur þannig áhrif að fólk hefur ekki upplifað að það fái þá þjónustu á svæðinu sem því finnst það eiga rétt á. Við getum séð það á því að það eru til dæmis þrjú þúsund af íbúum á Suðurnesjum skráðir á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu. Fólk er því að leita eitthvað annað til að fá sína þjónustu,“ segir Berglind jafnframt.

42% atvinnutekna í ferðaþjónustu

Í öðrum aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar, sem kynntur var í lok apríl, voru veittar 250 milljónir króna í atvinnuuppbyggingu, menntun og fleira á Suðurnesjum vegna efnahagsástandsins. „Við erum auðvitað með 30% atvinnuleysi hér á Suðurnesjum. Þannig að ég ætla ekki að segja að þetta sé meik og breik í þeirri umræðu. Þetta vigtar allt en við hefðum kannski viljað sjá stærri og meiri verkefni fara af stað hjá okkur. En ég held því miður að þetta ástand sé ekki að klárast í næstu viku.“

Hvað vantar mikla fjármuni? „Ég þori ekki að skjóta á það en við vitum þó að ferðaþjónustan á Suðurnesjum hefur skapað 42% af atvinnutekjum og ef við tökum það í burtu á þessu svæði þá sjá allir að þetta er mikið högg fyrir okkur.“