Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Slæm meðferð skattsins á einstæðri konu frá Eistlandi

07.06.2020 - 12:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Einstæð móðir frá Eistlandi, sem búið hefur með börnum sínum hérlendis síðan 2008, fékk þá málsmeðferð hjá ríkisskattstjóra að yfirskattanefnd taldi slíka annmarka vera á málsmeðferðinni að álagning var ómerkt og opinber gjöld konunnar felld niður í bili. Skattlagning ríkisskattstjóra miðaði við að konan væri í sambúð og hefði verið í Eistlandi nær helming ársins. 

Ekki einstæð og ekki á Íslandi segir Skatturinn

Konan skilaði seint skattframtali sínu í fyrra fyrir gjaldárið 2018. Ríkisskattstjóri féllst á sein skil en gerði þó þær breytingar að miða við konan hefði aðeins verið 212 daga ársins en ekki 365 hérlendis og ennfremur að barna- og vaxtabætur skyldi miða við að konan væri í sambúð. 

Flugfarseðlar sýna að hún var erlendis í tvo mánuði

Konan skaut þessum úrskurði ríkisskattstjóra til yfirskattanefndar. Í úrskurðinum er miðað við upplýsingar frá þjóðskrá Eistlands þar sem segir að konan hafi búið þar frá júlílokum. Konan sætti sig ekki við þetta og lagði fram flugfarseðla frá Íslandi í júní og til baka í ágúst. Hún segist ekki hafa tilkynnt um flutning úr landi auk þess sem börn hennar séu hér í námi og í leikskóla. Að auki hafi hún átt fasteign hér í sjö ár. Því eigi hún að fá vaxtabætur. Hún segir að ríkisskattstjóri virðist telja að hún hafi fengið barnabætur erlendis. Henni sé hins vegar ekki kunnugt um það.  

Bjó í Eistlandi að mati Skattsins en greiddi samtímis staðgreiðslu

Í úrskurði yfirskattanefndar segir að ríkisskattstjóri hefði átt að bjóða konunni að leggja fram gögn áður en hann ákvað að hún hefði búið í Eistlandi síðari hluta ársins 2018. Samkvæmt staðgreiðsluskrá skattsins hafi konan starfað hjá íslenskum launagreiðandi í nóvember og desember. Þær upplýsingar hefðu átt að gefa sérstakt tilefni til að ríkisskattstjóri aflaði upplýsinga. 

Skýrði ekki af hverju konan talin í sambúð

Þá hefði ríkisskattstjóri haft ríka ástæðu til að kanna hvort konan væri einstæð eins og hún tilgreinir í skattframtali en ekki í sambúð eins og ríkisskattstjória ákvað að miða við. Það fórst með öllu fyrir í úrskurði ríkisskattstjóra að gera grein fyrir þessum mun, segir yfirskattanefnd.

Ómerkt með öllu vegna annmarka

Þeir annmarkar voru á álagningu ríkisskattstjóra að mati yfirskattanefndar að ekki var hjá því komist að ómerkja hana með öllu og fella niður að svo stöddu opinber gjöld konunnar í fyrra þar á meðal barnabætur. Lagði yfirskattanefnd fyrir ríkisskattstjóra að hlutast til um nýja álagningu á konuna.