Nýtt frá Karitas Hörpu, Séra Bjössa og Cacksackah

Mynd: Birta Rán Björgvinsdóttir / FB

Nýtt frá Karitas Hörpu, Séra Bjössa og Cacksackah

07.06.2020 - 14:00

Höfundar

Lungi Undiröldunnar þennan sunnudag er helgaður tónlistarmönnum af nýja skólanum sem hafa heldur betur verið duglegir að gefa út og senda þættinum lög sín að undanförnu.

Karitas Harpa - Life Is Cold

Tónlistarkonan Karitas Harpa hefur verið iðin við kolann á árinu og sent frá sér nokkur lög sem eru bæði frumsamin og ábreiður. Nú sendir hún frá sér frumsamda lagið og textan Life Is Cold sem hún vinnur með þeim Zöe Ruth Erwin, Stefáni Erni Gunnlaugssyni og Arnari Guðjónssyni.


Séra Bjössi og Ingi Bauer - Faðir vor

Brandarakallarnir Alvar og Benjamín hafa verið vinir frá blautu en þeir mynda saman hljómsveitina Séra Bjössa, sem hefur verið vinsæl í barnaskólum landsins síðustu ár. Árið 2018 gáfu þeir frá sér plötuna Gamla testamentið en lagið Faðir vor verður á nýju plötu þeirra Nýja testamentinu.


Yung Nigo Drippin - Dices

Hafnfirðingurinn Brynjar Logi kallar sig Yung Nigo Drippin þegar hann rymur rímur um hvað hann er glæstur. Hann hefur sent frá sér lagið Dices sem fjallar um hvernig hann er klæddur og hvað hann fékk mikinn vasapening.

Bistro Boy, Kikuchi Giovanni - Northern Lights

Samstarf íslenska tónlistarmannsins Frosta Bistro Boy Jónssonar og japanska söngvarans Kikuchi Giovanni kom til í gegnum aðkomu beggja að kvikmynd Sekis Kit sem fjallaði um fjarsamband Íslendings og Japana með öllum tilheyrandi flækjustigum sem slíkum samböndum fylgja.


Ragna Ísabel - Eagle

Tónlistarkonan Ragna Ísabel hefur sent frá sér sitt annað lag á streymisveitur en það er lagið Eagle en áður hafði hún sent frá sér lagið New Life.


Helga Ingibjörg - Óskrifuð orð

Skagakonan Helga Ingibjörg hefur ekki verið áberandi í tónlistinni frá því hún tók þátt í Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2006 og gaf út jólalagið Glæddu jólagleði í þínu hjarta í fyrra. Nú hefur hún bætt úr því og sent frá sér lagið Óskrifuð orð.


J. Zone og Kri$$i - Alltof gamall

Jason Hagalín Jónasson og Kristinn Örn Gunnarsson ákváðu að búa til plötu sem lokaverkefni sitt í 10. bekk í Langholtsskóla. Verkefnið hefur gengið vel hjá strákunum og lagið þeirra Könnum heiminn er komið með yfir 3000 spilanir frá því í desember.


Cacksakkah - Leyndarmál frægðarinnar

Friðrik Attallasohn Cacksakkah er alræmdur tónlistarmaður, að eigin sögn, og hefur gefið út nokkrar ábreiður af dægurlögum síðustu mánuði. Lög hans geta áhugasamir fundið á streymisveitum og myndbönd við þau er að finna á YouTube.