Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Mynd af Sigurði Inga klippt úr úr mynd um Panamaskjölin

07.06.2020 - 17:55
Mynd með færslu
Sigurður Ingi Jóhannsson Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Framleiðslufyrirtæki kvikmyndarinnar Laundromat hefur fjarlægt mynd af Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fyrrverandi forsætisráðherra, úr myndinni. Þetta gerði fyrirtækið eftir að Sigurður Ingi fékk lögmann til að hafa samband við Netflix. Mynd af Sigurði Inga birtist í kvikmyndinni þar sem fjallað var um afsögn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr embætti forsætisráðherra vegna uppljóstrana í Panamaskjölunum.

Sigurður Ingi sagði í færslu fljótlega eftir að myndin var gefin út síðastliðið haust að honum þætti „sárt og óþolandi“ að vera bendlaður við þau spillingarmál sem fjallað væri um í kvikmyndinni. Þar var fjallað um lögmannsstofuna Mossack Fonseca, net aflandsfélaga og spillingu sem því tengdist.

Netflix
 Mynd: Skjáskot - Netflix
Upphaflega myndskeiðið sem sýndi Sigurð Inga í stað Sigmundar Davíðs.

Sigurður Ingi segir frá því í færslu á Facebook-síðdegis að hann hafi fengið lögmann til að ganga í málið. Í kjölfar þess hafi fyrirtækið fjarlægt atriðið og sett annað í staðinn „sem samræmist betur raunveruleikanum í málinu“, segir Sigurður Ingi og birtir skjáskot úr myndinni þar sem sjá má mynd af Sigmundi Davíð, fyrrverandi forsætisráðherra og formanni Framsóknarflokksins en núverandi formanni Miðflokksins.

„Mjög margir hvöttu mig til þess að fara fram á leiðréttingu og þakka ég stuðninginn. Rétt skal vera rétt,“ segir Sigurður Ingi.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV