Máttu reka konu þó ekki væri við hana eina að sakast

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn
Landsbankinn var í fyrradag sýknaður af kröfu konu sem krafðist bóta vegna brottrekstrar úr starfi. Konan taldi uppsögnina ólögmæta og meiðandi í sinn garð. Landsréttur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að bankinn hefði mátt segja konunni upp til að leysa vanda sem kominn var upp innan bankans. Þetta hefði bankinn mátt gera þótt svo ekki væri við konuna eina að sakast.

Konunni var sagt upp sumarið 2017 eftir atvik í samkvæmi starfsmanna. Rúmlega ári áður hafði farið að bera á hnökrum í samstarfi konunnar og undirmanns hennar. Undirmaðurinn kvartaði um haustið undan einelti og fékk konan áminningu í framhaldi af því. Starfsmaðurinn lét hins vegar af störfum að eigin ósk þegar niðurstaðan lá fyrir. Eftir uppákomuna í samkvæminu var konan boðuð á fund mannauðsstjóra og framkvæmdastjóra og sagt upp. 

Konan þótti hafa staðið sig mjög vel í starfi, að því er fram kemur í dómnum. Þar er tekið fram að einkafyrirtæki hafi umtalsvert svigrúm til að segja fólki upp að því gefnu að það sé gert í samræmi við lög og kjarasamninga. Uppsögn geti þó leitt til bótagreiðslna ef hún vegur að æru eða persónu starfsmannsins. Það á þó helst við ef bornar hafa verið rangar ávirðingar á starfsmanninn. Dómararnir sem kváðu upp dóm segja að Landsbankanum hafi verið heimilt að segja konunni upp til að leysa vanda sem upp var kominn í samskiptum. Það hafi  verið heimilt þótt svo ekki hafi verið við konuna eina að sakast. 

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi