Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Landeigendur á NV-landi áhugasamir um smávirkjanir

07.06.2020 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Tuttugu landeigendur á Norðurlandi vestra skoða nú kosti þess að hefja raforkuframleiðslu. Samtök sveitarfélaga í fjórðungnum hafa stofnað sérstakan smávirkjanasjóð og styrkt landeigendur um samtals sautján milljónir króna á þremur árum.

Orkustofnun hefur frá árinu 2016 unnið með landshlutasamtökum sveitarfélaga og fleirum að skráningu smærri virkjanakosta um allt land.

Smávirkjanasjóður SSNV til að styðja landeigendur

Landshlutasamtök hafa gengið mislangt í samstarfi og stuðningi við landeigendur en Samtök sveitarfélaga á Norðurlandi vestra eru þar komin einna lengst. Þar hafa verið skilgreindir um 80 mögulegir virkjanakostir. „Svo í framhaldi af því þá ákváðum við einmitt að taka þetta lengra til þess að styðja við landeigendur í því að taka næstu skref og stofnuðum smávirkjanasjóð," segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir, framkvæmdastjóri SSNV.

17 milljónir króna í verkefnið á þremur árum

Samtals hafa um 20 umsóknir borist þessum smávirkjanasjóði. Með framlagi úr sjóðnum, og eigin mótframlagi, geta landeigendur látið framkvæma nákvæma úttekt á því hvaða möguleikar eru fyrir hendi á landareigninni og hvort aðbært er að virkja. „Heildarfjármagnið sem við höfum verið að setja í þetta tiltekna verkefni frá árinu 2017 er tæplega 17 milljónir," segir Unnur.

Mögulegir vikjanakostir geti aukið verðgildi jarðanna

Hún segir að landeigendur séu komnir mislangt. Tveir séu við það að hefja virkjanaframkvæmdir og vonandi fylgi fleiri í kjölfarið þegar fram líða stundir. „Það má eiginlega segja að alveg sama hvað bóndinn gerir við þessa frumathugun, þar sem búið er að skoða hvort þessi kostur er vænlegur kostur til þess að setja upp smávirkjun, alveg sama þó hann geri ekkert með það þá er hann samt kominn með bevís upp á að þarna er þessi möguleiki. Sem getur svo leitt til þess að auka verðgildi jarðarinnar."