Dæmdur til 238 milljóna sektargreiðslu

Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Landsréttur staðfesti á föstudag tveggja ára skilorðsbundinn dóm yfir Ágústi Alfreð Snæbjörnssyni fyrir stórfelld skattalagabrot og skilasvik. Hann var dæmdur til að greiða 238 milljóna króna sekt í ríkissjóð innan fjögurra vikna eða sæta annars 360 daga fangelsi. Brotin framdi Ágúst Alfreð sem framkvæmdastjóri útibús verktakafyrirtækisins Adrakris á Íslandi. Fyrirtækið var um skeið stærsti verktakinn á vegum Reykjavíkurborgar.

Héraðssaksóknari ákærði tvo menn fyrir brot í starfsemi fyrirtækisins. Þeir voru ákærðir fyrir að standa ekki skil á virðisaukaskatti og opinberum gjöldum sem dregin höfðu verið af launum starfsmanna. Ágúst var líka ákærður fyrir skilasvik, fyrir að láta Reykjavíkurborg greiða inn á reikning Adrakris þrátt fyrir að greiðslurnar væru veðsettar MP banka.

Ágúst Alfreð sagði að forveri hans í starfi framkvæmdastjóra hefði steypt félaginu í skuldir og leynt sig fjárhagsstöðu fyrirtækisins. Því hefði hann þurft að ráðast í rústabjörgun þegar hann tók við því starfi. Sjálfur hefði hann óskað eftir því að innborganir á skattskuld félagsins færu inn á það uppgjörstímabil sem hann bæri ábyrgð á en ekki fyrri tímabil sem væru vegna eldri skulda. Þessum rökum hafnaði Landsréttur og sagði að við rannsókn hjá skattrannsóknastjóra væri engin slík fyrirmæli að finna.

Héraðsdómur Reykjavíkur hafði sakfellt bæði Ágúst Alfreð og forvera hans fyrir skattalagabrot. Síðarnefndi maðurinn fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm í héraðsdómi en Landsréttur sýknaði hann. Maðurinn var sýknaður í héraði þar sem sá dómari taldi að ákæruvaldið mætti leiðrétta augljósa villu um dagsetningar í ákæru. Landsréttur var á öndverðri skoðun og sagði það ekki aukaatriði hvaða tímabil væru tilgreind vegna brota í ákæru. Þess vegna stóð ákæran óbreytt og leiddi það til sýknu mannsins.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi