Búast megi við spennandi toppbaráttu

Mynd: Mummi Lú / RÚV

Búast megi við spennandi toppbaráttu

07.06.2020 - 19:30
Íslandsmeistarar Vals í fótbolta töpuðu í gær fyrir bikarmeisturum Selfoss í Meistarakeppni KSÍ. Valskonur kippa sér þó lítið upp við það og ætla sér að halda Íslandsmeistaratitlinum á Hlíðarenda. Leikmenn Vals telja þó að fleiri lið en Valur og Breiðablik muni berjast um titilinn í ár.

Pepsi Max-deild kvenna hefst á föstudaginn næsta og eru Íslandsmeistarar Vals í óða önn að klára undirbúninginn fyrir mótið. Skammt er síðan að lið fengu að koma saman og æfa án allra takmarkana.

„Á fyrstu æfingu eftir samkomubannið var ótrúlega gaman að hitta allar stelpurnar og það var svolítið eins og maður væri orðin tíu ára aftur. Við fórum einhverjar tveir á tvo eða þrír á þrjá, sem eru ekkert endilega skemmtilegustu æfingarnar, en það var bara eins og hátíð að mæta á æfingu.“ segir Hallbera Gísladóttir, leikmaður Vals.

Liðsfélagi hennar Elín Metta Jensen tekur undir: „Maður fann bara hvað manni finnst ógeðslega gaman í fótbolta þegar maður kom til baka,“

Pressa á að vinna alla leiki

Valskonur háðu ógleymanlega baráttu við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn í fyrra. Í næstsíðustu umferð mættust liðin sem voru þá bæði taplaus á mótinu. Þeim leik lauk með jafntefli. Valur vann svo Keflavík í lokaumferðinni og tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn án þess að tapa leik.

„Ég var í Breiðabliki og þar á maður að vinna alla. Svo kemur maður hingað og á líka að vinna alla. Það er einhvern veginn þannig að þú átt alltaf að stilla þig inn líkt og þú sért að fara að spila einhvern svaka úrslitaleik.“ segir Fanndís Friðriksdóttir.

„Ég held það sé nú ekki hægt að vera betri en að vera Íslandsmeistari. Málið er að það eru einhverjar breytingar á hópnum til að byrja með en fyrst og fremst snýst þetta um að halda áfram að gera það sem gerðum vel í fyrra og halda þeim standard sem við sýndum þá. Þá erum við í góðum málum.“ segir Pétur Pétursson, þjálfari Valskvenna, um sumarið sem fram undan er.

Fleiri lið blandi sér í titilbaráttuna

Úrvalsdeild kvenna hefur undanfarin ár haft þá tilhneigingu að verða kapphlaup tveggja liða um titilinn, þar sem langt bil hefur verið niður til keppnauta þeirra. En sjá leikmenn fyrir sér að slíkt muni gerast í ár?

„Blikarnir verða náttúrulega alltaf mesti keppinauturinn en held að það séu fleiri lið í ár og ég held að við þjálfararnir gerum okkur ekki grein fyrir því fyrr en við byrjum mótið í rauninni hvernig liðin eru.“ segir Pétur.

„Ég held að það verði fleiri lið sem verði líkleg í sumar, það eru náttúrulega einhver lið búin að styrkja sig vel og það er bara jákvætt fyrir deildina,“ segir Elín Metta.

„Hann gerir allt og ég ekki neitt“

Pétur Pétursson tók við þjálfun Valsliðsins fyrir sumarið 2018 þar sem liðið endaði í fjórða sæti á fyrsta tímabilinu undir hans stjórn áður en titillinn vannst í fyrra. Fyrir síðasta tímabil kom Eiður Benedikt Eiríksson inn í þjálfarateymið sem aðstoðarþjálfari. Hvernig þjálfarar eru þeir Pétur og Eiður?

„Þeir eru tveir mjög ólíkir þjálfarar. Pétur er búinn að fara í gegnum þetta allt saman sjálfur sem leikmaður og er svolítið gamli skólinn líka; kemur með svona skemmtilega vinkla inn í þetta og mikill agi. Síðan er Eiður svolítið meira að grúska á bakvið tjöldin. Hann er að sjá um myndbandgreiningu og taktík meira en saman eru þeir mjög gott kombó.“ segir Hallbera um þjálfarana.

„Eiður er náttúrulega gríðarlega skipulagður og sér um ótrúlega mikið. En Pétur kann þetta alveg og veit alveg hvað hann er að segja.“ segir Fanndís um þá kollega. Pétur lýsir sjálfur samstarfi þeirra hins vegar á einfaldan hátt:

„Hann gerir allt og ég geri ekki neitt.“

Elín þarf ekki ein að sjá um markaskorunina

Í fremstu línu liðsins leikur Elín Metta Jensen en margir frábærir leikmenn hafa spilað sem framherjar fyrir þetta sögufræga félag. Elín Metta hefur stimplað sig inn í þann hóp. Hún á að baki 159 meistaraflokksleiki og skorað í þeim 110 mörk. En finnur hún fyrir pressu að þurfa að skora í hverjum einasta leik?

„Nei, ég myndi nú ekki segja það. Ég er með góðan þjálfara, fyrrum markaskorara Pétur Pétursson, og við höfum aðeins talað um þetta. Hann veit alveg hvað hann syngur, svo er ég fullt af öðrum leikmönnum í liðinu líka svo ég hef ekki áhyggjur af því að bara ég þurfi alltaf ein að skora. Það hefur ekki verið vandamál hingað til.“ segir Elín.

Þá eru leikmenn liðsins sammála um að Valskonur geti varið Íslandsmeistaratitilinn í sumar.

Innslagið frá Hlíðarenda má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.

Tengdar fréttir

Fótbolti

Stefna á að verja Íslandsmeistaratitilinn

Fótbolti

Selfyssingar lögðu Val í meistaraslagnum