„Viljum gefa út bækur sem okkur langar að lesa“

Mynd:  / 

„Viljum gefa út bækur sem okkur langar að lesa“

06.06.2020 - 14:09

Höfundar

Bókaútgáfan Angústúra er komin á fjórða ár og útgáfubækurnar þegar orðnar fjölmargar og ólíkar. Leiðarljósið í vali á útgáfubókum var frá upphafi að gefa út bækur sem vantaði inn í flóru íslensks bókamarkaðar. Þetta voru í fljótu bragði skáldsögur sem eiga uppruna sinn í fjarlægari löndum eftir lítt og nær óþekkta höfunda hér á landi og hins vegar léttari bækur sem líklegar væru til vinsælda.

„Við byrjuðum með þýðingar bæði fyrir fullorðna og börn. Síðan hófst samstarfið við Hjörleif Hjartarson og Rán Flygenring. Fyrst með bókinni Fuglar en síðan kom Vigdís sagan um fyrsta konuforsetann. Svo hafa fleiri íslenskar bækur bæst við,“ segir María Rán Guðjónsdóttir sem ásamt Þorgerði Öglu Magnúsdóttur rekur bókaútgáfuna Angústúru.

Það varð þeim stöllum fljótlega ljóst að á íslenskum bókamarkaði voru ekki fyrir hendi margar bækur með sögum frá framandi löndum né heldur metsölubækur í anda Jennia Colgan bókanna sem voru metsölubækur um allan heim og því kannski ekki mikil áhætta að láta reyna á þær. „Þetta eru svo fallegar bækur, bara kápan er svo skemmtileg og strax fyrsta bókin seldi sig eiginlega sjálf,“ heldur María Rán áfram.

Það var Þorgerður Agla sem fyrst skoðaði bækur Jenny Colgan og „ég sogaðist bara algerlega inn í þessar sögur og María Rán bætir við, „bækur af þessar gerð eru auðvitað misjafnar, en þessar komu mér á óvart. Maður bara er í þessum þorpum þar sem sögurnar gerast og persónurnar eru ljóslifandi og skemmtilegar týpur. Það er eitthvað mannlegt og notalegt við þær.“

„Það er svo flott hvernig hún tekur þann raunveruleika og samtíma sem við þekkjum og prjónar síðan sitt ævintýri inn í það, því þetta eru ástarsögur. En ekki bara. Þetta eru sögur um konur, ungar konur, sem eru að leita að sínum stað og læra að treysta á sjálfar sig. Þroskasögur í rauninni ... svolítið flippaðar á köflum.“

Síðar í sumar ætlar bókaútgáfan Angústúra að færa svolítið út kvíarnar á vettvangi rómantískar gamanbókmennta, eins og þær María Rán og Þorgerður Agla vilja kalla þessa gerð bókmennta en innan tíðar er væntanleg á íslensku fyrsta bókin eftir Sophie Kinsella í þýðingu Maríönnu Clöru Lúthersdóttur.