Það er ekkert líf án ástar

Mynd: pixabat / pixabay

Það er ekkert líf án ástar

06.06.2020 - 14:14

Höfundar

segir Rósa Guðmundsdóttir sem fyrir þrjátíu og fimm árum stofnaði Ásútgáfuna í þeim tilgangi að gefa út rauðu ástarsögurnar, þýðingar á svoköllum harlequinbókum sem kanadíska bókaútgáfan Harlequin Enterprises hóf að gefa út um miðja síðustu öld og náðu fljótlega í þýðingum gífurlegum vinsældum um allan heim. Hér er um að ræða ástarsögur sem ævinlega enda vel.

Í hverjum mánuði alla mánuði ársins sendir Ásútgáfan frá sér 6 bækur í íslenskri þýðingu í hinum ýmsu flokkum rauðu ástarsagnna. Þetta eru kiljur á lágu verði sem lesendur geta keypt í áskrift en einnig í bókabúðum. Allt í allt hafa á þessum þrjátíu og fimm árum komið út 1869 titlar og þar af hafa 793 einnig komið út í rafbók og einnig almargar, en þó miklu færri, sem hljóðbækur. 

Fyrir hvern mánuð hefur Rósa 60 bækur til að velja úr sínar 6 útgáfubækur. Hún hefur því í gegnum árin lesið ógrynnin öll af rauðum ástarsögum og veit hvað það er sem heillar: „Allar mínar bækur enda vel (...) þær eru bara lífið, það er ekkert líf án ásar, ástin kemur alls staðar inn (...) Og það er spenna líka. Það verður að vera komið efni af stað, vakning, á blaðsíðu 15 annars leggur lesandinn bókina frá sér. Þá eru þessar bækur skrifaðar eins og leikrit, lesandinn sér þetta sjónrænt fyrir sér, hann er með persónunum, sem eru skemmtilegar þótt þær séu bæði góðar og illar.“ 

Rauðu ástarsögurnar eru gefnar út í nokkrum flokkum. „Þeir sem vilja ljúfar bókmenntir fá hreinar ástarsögu og sjúkrahússögur, síðan kemur spennan í flokkum eins og ást og afbrot eða ást og undirferli. Þær eru harðari, morð og því um líkt. Svo er ást og óvissa og örlagasögur.“  Eitthvað fyrir alla og um fram allt kunnuglegt. 

Rósa vill ekki viðurkenna að hér séu gamaldags sögur á ferð. „Þær eru alveg nýtískulegar og konur oft í aðalhlutverkum. Það er engin niðurlæging á konunum hjá mér, þær eru oft stjórnendur í bókunum sem ég vel,“  segir Rósa. Á Íslandi hafa sagnaflokkar um stórar fjölskyldur sýnt sig njóta hvað mestra vinsælda og er þar oft smokrað inn í hinn eiginlega flokk framhaldssagna svokölluðum miniseríum, þar sem athygli er beint að smærri hópi persóna. „Við Íslendingar erum mikið fjölskyldufólk og viljum vita allt um allar persónurnar á kannski sex manna búgarði.“ 

Rósa segist alltaf hafa verið lestrarsjúk og innbundnar bækur voru einfaldlega svo dýrar þess vegna hafi hún farið út í það að gefa út bækur í ódýru vasbrotsbroti sem varð fljótt vinsælt og er enn þótt vissulega hafi dregið úr á síðustu árum, eftir því sem Rósa segir

Mynd: boklist/hi / boklist/hi
Dagný Kristjánsdóttir (bóklist/hi)

Rauðu ástarsögurnar rata ekki oft inn í almenna bókmenntaumræðu í fjölmiðlum. Eigi að síður hafa fræðimenn sannarlega látið sig þessar bókmenntir varða enda seljast þær vel um allan heim. Talað er um að bækur Harlequin Enterprises ráði 17 % heimsbókamarkaðarins. Þá má í þessum bókum kenna mörg sömu lögmál frásagnartækni sem beitt er í öðrum bókmenntagreinum ekki síst svoköllum „feel good“  bókum sem kalla mætti vellíðunarbókmenntir, sem oft eru gamansögur um líf kvenna ástir, vinnu og vesen eins og skvísubókmenntir. Dagný Kristjánsdóttir prófessor emerita í bókmenntafræðum við Háskóla Íslands er einn fárra fræðimanna íslenskra sem hefur skoðað þessa bókmenntagrein.  

Líklega var það bandaríska fræðikonan Tania Modeleski sem fyrst rannsakaði þessa tegund bókmennta og skrifaði fyrstu bókina um rauðar ástarsögur en síðar hafa þessar rannsóknir verið hluti af akademíunni ekki síst femínísks fræðafólks. 

Þótt margt hafi breyst í þessum sögum í áratuganna rás þá er það ástin sem er í brennidepli, þráin eftir ást og leitin að ástinni, vonbrigðin sem koma upp á þeirri leið og sigrarnir og „með þetta frumferli er hægt að vinna á alla enda og kanta,“ segir Dagný, „Þetta eru ævintýri að sumu leyti, sérstaklega fyrst þegar þessar sögur fjölluðu nær einvörðungu  um ungu dyggðugu stúlkuna sem finnur draumaprinsinn sinn eins og Mjallhvít.“ 

Og þetta voru mikilvægar bókmenntir fyrir konur sem bundnar voru yfir þjónustustörfum á heimilum því lesandi ástarsögur voru þær ekki tiltækar. „Kona sem er að lesa ástarsögu hún kúplar sig út, hún tekur ekki þátt í þeim kröfum sem eru gerðar til hennar. Hún er í sínum heimi. Þetta er ákveðin uppreisn gegn hlutverki húsmæðranna, sem segja má að þarna fái hlutdeild í sérherberginu, sem Viginia Woolf talar um.“ Þá hafa rannsóknir sýnt að konur hafi notað þessa tegund bókmennta til slökunar og til að sætta  mótstríðandi kröfur milli drauma og veruleika sem konur í ábyrgðarstöðum upplifa. „Þótt konur séu yfirleitt í aðalhlutverkum í þessum sögum og að það séu konur sem lesi þær þá er ekki þar með sagt að þær samsami sig einvörðungu konunum í sögunum. Þær samsvara sig ekki síður hinum demóníska elskhuga og töffaranum, sem er svo óstýrilátur og þarf að temja.“

Ástarsögur hafa lengst af verið nokkuð alvarlegar þótt þær séu einfaldar. Nútímaafþreyingarbókmenntir sem konur sækjast eftir og fjalla oftar en ekki um konur eru hins vegar fyndnar og jafnvel paródískar og gefa fullkomleikanum varðandi t.a.m. útlit og fórnfýsi langt nef. „Núorðið rúma nýrri ástarsögur í raun allt sem ungar konur glíma við.“

Árið 1992 kom út bókin Dangerous Men and Adventurous Women: Romance Writers on the Appeal of the Romance þar sem fjórir höfundar ástarsagna sem jafnframt eru bókmenntafræðingar setja fram þá kenningu um stíl og frásagnartækni ástarsagna að þær beiti í skrifum sínum tungumáli ástarsagna, stíl sem sé „tilfinningaþrunginn, svolítið ýktur með undirliggjandi erkitýpum og goðsögnum og klisjum. Það sé því ómarktækt að tala um lélegan stíl, þetta sé einfaldlega stíll ástarsagnanna og það sem lesendur þeirra sækjast eftir.“