Slysum vegna rafhlaupahjóla fer fjölgandi

06.06.2020 - 18:36
Mynd: RÚV / RÚV
Yfirlæknir á bráðamóttöku Landspítalans segir slysum vegna rafhlaupahjóla fara fjölgandi, stundum séu þau jafnvel nokkur á dag. Hann segir mikilvægt að umgangast þau eins og farartæki, nota hjálm og virða umferðarreglur. Hjálmur kom í veg fyrir að níu ára strákur í Kópavogi slsaðist illa þegar hann ók á ljósastaur.

Rafhlaupahjólum fer ört fjölgandi enda umhverfisværnn og lipur ferðamáti og maður getur verið snöggur á milli staða. En það er einmitt málið, það er hægt að komast töluvert hratt á þessum hjólum og þannig er maður snöggur á milli staða. 

Benedikt Jóhann Gunnarsson fékk rafmagnshlaupahjól í afmælisgjöf á dögunum og lenti í slysi skammt heiman frá sér.

„Ég var að fara til vinar míns, síðan horfði ég á einhverja stráka og síðan horfði ég aftur áfram þá sá ég ljósastaur og síðan bara klessti ég á hann og síðan vaknaði ég á jörðinni liggjandi með einhverjum mönnum og einhverri stelpu og konu.“
Rotaðistu?
„Já.“
Og það eitthvað fólk að hjálpa þér?
„Já.“  

Benedikt var fluttur með sjúkabíl á bráðamóttöku Landspítalans þar sem gert var að sárum hans í andliti og á höfði, auk þess sem hann er aumur í bringunni eftir höggið. Hann var með hjálm sem sýndi sig að gerði sitt gagn því höggið var það mikið að sprunga kom í hjálminn. Hann segist ætla að fara varlega svo svona lagað endurtaki sig ekki, því hann segir gaman á hjólinu.

„Það er gaman. Maður þreytist ekkert eins og fara upp brekkur hjólandi þá verður manni illt í fótunum, en ekki á þessu.“

Jón Magnús Kristjánsson segir slysum á svona tækjum fara fjölgandi.

„Við erum að sjá nokkur svona slys á viku og suma daga erum við að fá nokkur á dag þannig að þetta er klárlega aukning frá því sem var fyrir einu og hvað þá þremur, fjórum árum.“

Eins og fyrr segir var Benedikt Jóhann með hjálm, en Jón Magnús segir það alla vega hvort fólk sé með hjálm eða ekki.

„Við erum að fara af stað með ítarlegri könnun á þessu þar sem við ætlum að fylgjast með þessu í sumar, meðal annars til þess að svara þeirri spurning í hversu miklum mæli er að nota hjálma á þessi tæki. En það er mjög mikilvægt að gera sér fyrir þvi að það er mjög margt sameiginlegt með þessum tækjum og reiðhjólum. Maður er mjög illa varinn, það er mjög auðvelt að ná mikilli ferð og ef þú lendir í óhappi þá áttu á hættu að reka höfuðið í gangstéttina.“

Almennt er gefið upp að rafmagnshlaupahjól nái 25 kílómetra hraða, en fullyrt er að með  breytingum sé hægt að ná mun meiri hraða. 

„Besta ráðið held ég að sé að umgangast þessi tæki eins og reiðhjól. Það þarf að vera með hjálm, það þarf að fara að öllu með gát, það þarf að gæta sín á umferðinni og hafa athyglina í lagi og þar með talið að vera ekki ölvaður á þessum faratækjum,“ segir Jón Magnús Kristjánsson.
 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi