Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Einkaþota flýgur með hvít blóðkorn til Kanada

06.06.2020 - 18:37
Mynd: RÚV - Guðmundur Bergkvist / RÚV
Flogið verður í kvöld með hvít blóðkorn úr þremur Íslendingum í einkaþotu á rannsóknarstofu í Kanada þar sem þau verða notuð til að búa til mótefni fyrir kórónuveirunni. Kári Stefánsson vonast til þess að mótefni og bóluefni verði til fyrir árslok.

Þrisvar sinnum fleiri en voru greindir sýktust af veirunni 

Skimun Íslenskrar erfðagreiningar eftir veirunni sýnir að um hálft prósent þjóðarinnar mun hafa sýkst af henni. Niðurstaðan úr mótefnamælingu erfðagreiningar sýnir aðra útkomu það er að í kringum eitt prósent af þeim, sem ekki greindust með veiruna í skimun og voru heldur ekki í sóttkví, eru með mótefni gegn veirunni. 

„Það þýðir sem sagt að um það bil þrisvar sinnum fleiri heldur en þeir sem voru greindir sýktust af veirunni og stór hundraðshluti þeirra varð ekki lasinn,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar. 

Þá kom í ljós að níu af hverjum tíu, sem smituðust af kórónuveirunni, eru með mótefni og líka að rúm tvö prósent þeirra, sem voru í sóttkví en ekki með smit, voru með mótefni. Þetta vakti áhuga vísindamannanna og farið var að skoða mótefnin betur.  

Sex manns með mikið mótefni gáfu blóð

Þrír Íslendingar voru í Blóðbankanum í dag í tvo klukkutíma hver að láta taka úr sér blóð. Hvítu blóðkornin úr því hafa svo verið einangruð. Nú er einkaþota á leiðinni til landsins að sækja hvítu blóðkornin. Hún flýgur svo með það strax yfir næstum því hálfan hnöttinn til Bresku Cólumbíu í Kanada á rannsóknarstofu lyfjafyrirtækisins Amgen sem líka á Íslenska erfðagreiningu. Hvít blóðkorn úr þremur öðrum Íslendingum hafa líka áður verið flutt til Kanada sömu leið. Þessir sex eiga það sameiginlegt að hafa verið með mikið af mótefni í blóðinu en þeir eiga líka sameiginlegt að hafa ekki orðið mikið veikir af veirunni. 

„Þetta hefur gengið mjög vel. Þeir eru búnir að velja úr öllum þessu hvítu blóðkornum þessara einstaklinga þau hvítu blóðkorn sem búa til mótefni gegn þessari veiru. Og það sem meira er þeir eru búnir að velja úr þessu hópi af hvítum blóðkornum þau hvítu blóðkorn, sem búa til mótefni, gegn akkúrat þeim hluta veirunnar sem mönnum finnst líklegt að þurfi að vera með mótefni til þess að afvopna þau.“

Hraðamet í gerð bóluefnis og mótefnis

Takist að búa til mótefni verða þau gefin fólki sem er orðið veikt af COVID-19 og ræður ekki við sýkinguna. Bóluefnið, sem verið er að reyna að finna, verður gefið til þess að líkaminn myndi sjálfur mótefni fyrir veirunni. 

„Þannig að það er verið að nálgast þennan sjúkdóm á tvennan máta. Annars vegar með því að fyrirbyggja og hins vegar með því að lækna.“

Tíminn skiptir öllu máli og segir Kári að sér kæmi ekki á óvart að einhver mótefni gegn veirunni væru komin fyrir árslok. Það sama eigi við um bóluefni þar sem stefni í einhvers konar hraðamet. 

„Og þá er um að ræða alveg ótrúlegan hraða því ekki því að þessi veira er í okkar lífi ekki nema svona fimm mánaða gömul.“

Fagnar því að lyfjaiðnaður vinni saman í þágu samfélagsins 

Kári segir að sér finnist alveg sérstaklega skemmtilegt við þetta að fjöldi lyfjafyrirtækja vinni nú saman.

„Og þessi iðnaður sem er yfirleitt heldur leiðinlegur verðleggur sín lyf alltof, alltof há og eru í alla staði heldur svona andfélagsleg í sinni hegðan að þeir eru að breyta út af þeirri hefð núna. Nú eru þau að snúa bökum saman. Þau ætla að vinna að þessu saman.“

Stjórnendur lyfjafyrirtækjanna eru búnir að lýsa því yfir, segir Kári, að kórónuveirulyf verði ekki seld til að græða á þeim heldur dreift til að koma sem flestum að notum. 

„Það er held ég hljóti að vera í fyrsta sinn í nútímasögu svona fyrirtækja að þau snúi bökum saman á þennan hátt og vinni eins og þau séu raunverulegur hluti af sínu samfélagi sem mér finnst að okkur beri að fagna.“

Hér að neðan má sjá viðtalið við Kára í heild.

Mynd: RÚV / RÚV