Bolsonaro íhugar að feta í fótspor Trumps

06.06.2020 - 02:14
epa08462828 Brazilian President Jair Bolsonaro speaks to his supporters without a mask, in breach of the decree on the mandatory use of masks to protect against the coronavirus, at the Palacio do Alvorada, headquarters of the presidency, in Brasilia, Brazil, 03 June 2020.  EPA-EFE/Joédson Alves
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hótaði því í gærkvöld að feta í fótspor starfsbróður síns í Bandaríkjunum og draga Brasilíu úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Hann sakar stofnunina um hugmyndafræðilega hlutdrægni.

Stofnunin varaði við því að höftum til að koma í veg fyrir útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 yrði aflétt of snemma í landinu. Yfir 30 þúsund greindust með veiruna í gær og yfir þúsund létu lífið af völdum sjúkdómsins. Alls eru nú yfir 35 þúsund látnir af völdum COVID-19 í Brasilíu og nærri 650 þúsund greinst smitaðir. Talsverðar líkur eru á að mun fleiri séu smitaðir þar sem sýnataka hefur verið af verulega skornum skammti í landinu. 

Bolsonaro hefur ítrekað gert lítið úr faraldrinum. Í leiðara brasilíska dagblaðsins Folha de Sao Paulo er minnt á að hundrað dagar eru síðan Bolsonaro lýsti faraldrinum sem smáræðis flensu. Nú deyr Brasilíumaður á hverri mínútu af völdum sjúkdómsins, segir í leiðaranum.

Talskona Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sagði á blaðamannafundi í Genf í gær að útbreiðsla faraldursins í rómönsku Ameríku sé mikið áhyggjuefni. Ekki sé rétt að íhuga að aflétta samkomu- eða útgöngubanni fyrr en útbreiðslan er í rénun, sem sé ekki raunin víðast hvar í Mið- og Suður-Ameríku. 

Bolsonaro sagði við blaðamenn fyrir utan forsetahöllina í Brasilíuborg að hann íhugi nú að draga ríkið úr Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni, nema stofnunin hætti að láta stjórnast af pólitík.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi