Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Sökuðu minnihlutann um dylgjur og útúrsnúninga

Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Hafnarfjörður
Enn var tekist á í bæjarráði Hafnarfjarðar í gær vegna fyrirhugaðrar sölu á hlut sveitarfélagsins í HS Veitum. Minnihlutinn sakar meirihlutann um að fylgja ekki verkferlum og að halda upplýsingum frá almenningi. Þá er spurt hvort vitneskja um mögulega fjárfesta hafi verið ljós frá upphafi og málið því keyrt áfram eins hratt og kostur er. Meirihlutinn vísar gagnrýninni á bug.

Fyrirhuguð sala á hlut Hafnarfjarðar í HS veitum var samþykkt í bæjarráði 22. apríl, en minnihlutinn í bæjarstjórn hefur alfarið lagst gegn þeim áformum. Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, hefur sagt að aðeins verði kannað hvaða verð fengist fyrir hlutinn en það sé fyrirhugað vegna útlits um 5 til 6 milljarða króna tekjufall á móti auknum útgjöldum vegna kórónuveirufaraldursins. Það bil verði aðeins brúað með aðhaldsaðgerðum, lántökum og eða sölu eigna en hlutur Hafnarfjarðar í HS Veitum er sagður geta verið metinn á um þrjá og hálfan milljarð. 

Á fundi bæjarráðs í gær lagði minnihlutinn fram sameiginlega bókun um málið þar sem gagnrýnt er hversu seint og illa fyrirspurnum um málið hefur verið svarað. Bent var á að svör hafi loks fengist eftir klukkan 22 á miðvikudagskvöld, en fundur bæjarráðs hófst svo klukkan 8.15 í gærmorgun og formleg athugasemd var gerð að fulltrúar fái ekki nægan tíma til undirbúnings. 

Vildu klára málið fyrir sumarleyfi

Samkvæmt því sem kemur fram í bókun minnihlutans þá eru gefnar tvær ástæður fyrir því að áhersla er lögð á að mögulegt söluferli taki stuttan tíma. Annars vegar vegna hættu á að annað sveitarfélag verði fyrra til við sölu á sínum hlut sem myndi binda hlut Hafnarfjarðarbæjar til lengri tíma, og hins vegar svo málið verði klárað fyrir sumarleyfi.

hitaveita suðurnesja, hs veitur, dreifing á raforku, reykjanesbær,
 Mynd: RÚV/Eddi
HS Veitur.

Minnihlutinn gagnrýnir vinnubrögðin harðlega þar sem vikið er frá hefðbundnum verkferlum á þeim forsendum að það geti tafið málið til hausts. Þá er einnig gagnrýnt að upplýsingar um áætlað umfang samningsins hafa verið teknar út og upplýsingum um söluprósentu haldið leyndri fyrir almenningi. Þá vill minnihlutinn vita hvort vitneskja um áhugasama kaupendur hafi legið fyrir áður en meirihluti bæjarráðs samþykkti að hefja undirbúning að sölunni 22. apríl.

„Dylgjum og útúrsnúningum“ vísað á bug

Meirihlutinn svaraði gagnrýninni með bókun þar sem „vísað er á bug dylgjum og útúrsnúningum minnihlutans vegna málsins.“ Bent er á að sveitarfélaginu sé heimilt að ganga til viðræðna við ráðgjafa án útboðsferlis. Mikilvægt þótti að fá fram tilboð í hlutinn fyrir sumarleyfi en svo taki við tími til að vega og meta tilboðin sem berast. Enginn flýtir væri því í sölunni sjálfri eins og ýjað er að.

Varðandi fyrirspurnina hvort vitneskja um kaupendur hafi legið fyrir svaraði meirihlutinn því strax. „Í gangi er opið söluferli sem auglýst hefur verið opinberlega og er svarið við fyrirspurninni því einfaldlega: Nei,“ segir í bókun meirihlutans.