Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Sex flugfélög fljúga til Íslands í sumar

05.06.2020 - 10:16
Mynd með færslu
Mynd úr safni Mynd: Gerard van der Schaaf - Flickr
Sex flugfélög hyggjast fljúga til Keflavíkur frá 15. júní. Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia, í samtali við fréttastofu. Ungverska flugfélagið Wizz Air hefur þegar hafið flug til Keflavíkur.  

Flugfélögin sex sem boðað hafa komu sína eru Atlantic Airways, Czech Airlines, Icelandair, SAS, Transavia og Wizz Air. Áfangastaðirnir sem staðfestir hafa verið eru Færeyjar, Prag, Kaupmannahöfn, Amsterdam og Mílanó.  

Þá hefur Túristi.is greint frá því að Lufthansa muni hefja áætlunarflug til Íslands í byrjun júlí. Þar var haft eftir Andreas Köster, svæðisstjóra hjá félaginu, að Lufthansa muni fljúga einu sinni í viku til München og tvisvar í viku til Frankfurtar. Guðjón segir að félagið hafi þó ekki enn staðfest áform sín við Isavia. 

Guðjón getur ekki staðfest hvort fleiri flugfélög komi til með að bætast í hópinn en samkvæmt tilkynningu Isavia hafa fjögur flugfélög staðhæft að þau hafi engin áform um að fljúga til landsins í sumar. Þetta eru flugfélögin American Airlines, Delta, United og Air Canada.  

Flug Wizz Air til og frá Íslandi í dag og fram á sunnudag eru fjögur talsins. Áfangastaðirnir eru Luton, Gdansk, Vín og Búdapest.

Vefur Isavia sýnir ekki flugáætlun eftir þann tíma og Guðjón getur ekki staðfest hvort félagið muni halda áfram að fljúga til landsins fram að 15. júní. Hins vegar er opið fyrir bókanir á ofangreinda áfangastaði frá deginum í dag á vef Wizz Air.