Ráðherra rekinn fyrir að áforma sælgætiskaup

05.06.2020 - 14:19
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Rijasoa Andriamanana, menntamálaráðherra Madagaskar, hefur verið rekin fyrir að áforma að kaupa sælgæti fyrir hátt í þrjú hundruð milljónir króna. Sætindin ætlaði hún að gefa nemendum til að þeir ættu auðveldara með að kyngja jurtatei sem Andry Rajoelina, forseti landsins, segir að verndi fólk gegn kórónuveirunni.

Madagaskarska ungviðinu þykir teið rammt og bragðvont með afbrigðum. Hver nemandi átti að fá þrjá sælgætismola til að koma drykknum niður.

Rajoelina forseti áformar að markaðssetja jurtateið erlendis. Hann hefur sagt að það sé hið græna gull landsins og eigi eftir að valda straumhvörfum. Engar vísindalegar niðurstöður liggja fyrir um að drykkur forsetans geri gagn í baráttunni við kórónuveiruna.

Madagaskar er eitt af fátækustu ríkjum heims.

 

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi