Nýtt frá Emmsjé Gauta, Heru og Einari Ágúst

Mynd: Emmsjé Gauti / Bleikt ský

Nýtt frá Emmsjé Gauta, Heru og Einari Ágúst

05.06.2020 - 10:20

Höfundar

Við fögnum fjölbreytninni í Undiröldunni að þessu sinni, byrjum í huggulegheitapoppi og förum síðan smá súrnandi með tilraunakenndri raftónlist og rappi beint úr undirheimum.

Hera - Yours

Tónlistarkonan Hera Hjartardóttir heldur áfram að senda frá sér söngla af væntanlegri plötu sinni en lagið Yours er sá fjórði í röðinni. Að venju er hún með einvalalið með sér í sköpuninni. Alexander Harmer, Barði Jóhannsson, Ben Campbell, Kristinn Snær Agnarsson og Moses Robbins sjá um hljóðfæraleik í nýja laginu.


Einar Ágúst og Porterhouse - Mín von

Porterhouse er lagahöfundaverkefni feðganna Finns Bjarka og Hilmars Tryggva þar sem þeir hafa fengið til liðs við sig söngvarann Einar Ágúst úr hljómsveitinni Skítamóral. Lagið flytur Porterhouse ásamt Einari en þeim til aðstoðar eru Jón Elfar Hafsteins á gítar og Gunnlaugur Briem á trommur.


Krístín Sesselja - Secret

Lagahöfundurinn og söngkonan Kristín Sesselja hefur sent frá sér lagið Secret til að fylgja á eftir síðasta lagi sínu What would I do without you? Bæði lögin verða á plötunni Breakup Blues sem kemur út seinna í sumar.


Ari Árelíus - Hringrás

Hringrás er óræðið hugtak, notað í veðurspám, læknisfræði og Disney-myndum en í laginu styðst Ari Árelíus við það á forsendum heildrænnar hugsunnar, að eigin sögn. Í laginu Hringrás blandar hann saman heimstónlist, brimbretta- og skynvillurokki í súrsætan kokteil.


Urmull & Kraðak - One Eyed Jack

Urmull & Kraðak eru þeir Ragnar Jón Ragnarsson og Helgi Egilsson. Saman og hvor í sínu lagi hafa þeir verið í ýmsum hljómsveitum til dæmis Albatross og Fjallabræðrum. Þeir byrjuðu að búa til raftónlist og fönk í kjallara í Hafnarfirði og búa til indískotið triphop undir nafninu Urmull & Kraðak.


Emmsjé Gauti og Birnir - Vandamál

Tónlistar- og veitingamaðurinn Gauti Þeyr Másson hefur sent frá sér þriðja söngulinn af plötu sinni Bleik ský sem kemur út fljótlega. Í laginu nýtur hann aðstoðar rappkollega síns Birnis Sigurðarsonar. Þeir félagar eiga textann en lagið er eftir Björn Val Pálsson.


Haki og Bubbi - Flýg

Haki sendi á dögunum frá sér nýtt lag sem nefnist Flýg. Í laginu notar Haki brot úr lagi Bubba Morthens, Velkomin af Regnbogans stræti. Haki gaf út plötuna Offline í september í fyrra en Flýg er ekki að finna á henni.


Birgir Hákon - Block Baby

Þá liggur leiðin í blokk í Breiðholti þar sem Birgir Hákon reppar 111 að eilífu í lagi sínu Block Baby sem verður eflaust hitt í undirheimum eins og klassískir slagarar hans Hanskahólfið og Pening á heilanum.