Nýræktarstyrkir veittir nýjum höfundum

Mynd með færslu
 Mynd: MÍB

Nýræktarstyrkir veittir nýjum höfundum

05.06.2020 - 09:41

Höfundar

Miðstöð íslenskra bókmennta hefur tilkynnt um úthlutun Nýræktarstyrkja til fjögurra nýrra höfunda fyrir verk þeirra.

Fimmtudaginn 4. júní, veitti Miðstöð íslenskra bókmennta fjórum nýjum höfundum Nýræktarstyrki fyrir verk þeirra, en hver styrkur nemur hálfri milljón króna. Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, afhenti styrkina við athöfn í Gunnarshúsi, húsi Rithöfundasambandsins.

Nýræktarstyrkir eru veittir árlega fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, og til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. Átt er við skáldverk í víðri merkingu; sögur, ljóð, leikrit og fleira.

Verkin sem hljóta viðurkenninguna í ár eru ljóðabækur, furðusaga og smásögur. Nýræktarstyrki Miðstöðvar íslenskra bókmennta 2020 hljóta eftirtalin verk og höfundar:

500 dagar af regni
Smásögur
Höfundur: Aðalsteinn Emil Aðalsteinsson 

Taugaboð á háspennulínu
Ljóðabók
Höfundur: Arndís Lóa Magnúsdóttir 

Skuggabrúin
Furðusaga
Höfundur: Guðmundur Ingi Markússon

Þagnarbindindi
Ljóðsaga
Höfundur: Halla Þórlaug Óskarsdóttir 

Að vali styrkhafa standa bókmenntaráðgjafar Miðstöðvar íslenskra bókmennta, sem í ár eru þau Bergsteinn Sigurðsson og Erna Erlingsdóttir. Hægt er að kynna sér höfunda og verkin betur á vef Miðstöðvar íslenskra bókmennta.

Tengdar fréttir

Bókmenntir

Nýræktarstyrkir afhentir

Bókmenntir

Nýræktarstyrkir veittir nýjum höfundum

Bókmenntir

Menntamálaráðaherra afhendir nýræktarstryk