Mætti með fermetra af drasli í viðtalið

Mynd:  / 

Mætti með fermetra af drasli í viðtalið

05.06.2020 - 14:41

Höfundar

Mörgum brá í brún þegar að Hrafn Jökulsson birti tilkynningu þess efnis að leggja á niður skákfélagið Hrókinn. Hrafn vonast til að geta varið tíma sínum í að hreinsa ströndina við Kolgrafarvík. Hann mætti í Síðdegisútvarpið á Rás 2 með heilan fermetra af drasli sem hann týndi við ströndina og þar mátti finna ótrúlegustu hluti.

Hrafn hefur verið í forsvari fyrir Hrókinn í 22 ár. Hann tók þátt í stofnun skákfélagsins á sínum tíma á Grand Rokk þar sem félagsskapurinn hittist enn reglulega. Uppgangur félagsins var mikill en auk þess að ná markmiðum sínum um sigra á Íslandsmótinu í skák hefur Hrókurinn staðið fyrir skákkennslu í grunnskólum og alls kyns söfnun og góðgerðarstarfi á Grænlandi.

Nú hefur Hrókurinn verið lagður niður. Hrafn vonast til þess að geta sinn öðrum málefnum af jafnmiklum krafti. Hann hefur að undanförnu gengið strandlengjuna við Kolgrafarvík og hreinsað rusl og annað tilfallandi sem hefur safnast upp í fjörunni í geysimiklu magni. Hrafn á góðar minningar þaðan og vill því halda ströndinni hreinni og fallegri. Hann bast Árneshreppi tilfinningaböndum eftir að hann fór þangað sem vinnupiltur árið 1974.

„Kolgrafarvík er stór og falleg vík sem breiðir út faðminn móti opnu hafi og þangað sópast inn drasl og óþverri frá okkur mönnunum, daginn út og daginn inn, árið um kring. Viðurinn sem einu sinni var auðlind, drumbarnir frá Rússlandi, nú safnast þetta upp í fjörunum innan um fúasprek og svo kemur brimið á veturna og hrærir þessu saman við endalaust plastið og netaspreðurnar. Þarna þarf að hreinsa ærlega til því ég vil ekki að þessi ævintýrarheimur minnar bernsku verði að öskuhaugum minna efri ára,” segir Hrafn. 

Hrókurinn stendur nú fyrir söfnun á kveðjugjöf til Kalak, vinafélags Íslands og Grænlands, og verður kveðjugjöfin meðal annars nýtt til að endurnýja eldhús á barnaheimili í bænum Tasiilaq á austurströnd Grænlands. „Þarna er meistarakokkur sem eldar hollan mat fyrir börnin, sömuleiðis fyrir sambýli sem er þarna fyrir fatlaða. Þannig að við ætlum að safna þremur milljónum svo þau geta endurnýjað almennilega hjá sér á barnaheimilinu í Tasiilaq,” segir Hrafn. Hann heitir því að vinna af jafnmiklum krafti og eldmóði að hreinsun Kolgrafarvíkur eins og hann hefur unnið að markmiðum Hróksins síðustu ár náist markmið söfnunarinnar. 

Athygli vakti að Hrafn mætti með dularfullan poka í viðtalið og hófst hann svo handa við að týna upp alls kyns drasl úr pokanum. Hann sagði að í pokanum væri um það bil einn fermetri af drasli sem hann týndi upp í fjörunni, skór, goggur, plastbrúsi og annað drasl. „Svona eru fjörurnar okkar,” segir Hrafn sem nú er genginn til liðs við Bláa herinn sem hefur unnið að hreinsun strandlengjunnar og hafsbotnsins umhverfis Ísland.

Hrafn ræddi einnig stofnun Hróksins. Skákfélagið var stofnað af hópi sem sótti Grand Rokk reglulega og hafði það markmið að verða Íslandsmeistari í skák á sem skemmstum tíma. Hrafn talar vel um Grand Rokk og segir dýnamískt samfélag hafa þrifist á staðnum en þar hafi komið saman skákmenn, listamenn, iðnaðarmenn, ráðherrar og rónar. Þegar að Hrókurinn hafði náð markmiði sínu og sigrað Íslandsmótið í skák fór félagið að einbeita sér að skákkennslu í grunnskólum landsins og á Grænlandi. „Grænlandsstarfið okkar snerist bara um skák í fyrstu því við auðvitað féllum fyrir þessu stórkostlega landi þar sem býr þessi yndislega þjóð sem lítur á Íslendingar sem ekki bara næstu nágranna sína, heldur vini og samherja í norðrinu. Við höfum verið að stuðla að því að það verði miklu meiri samskipti, við eigum að vinna saman, eyþjóðirnar í norðri, Grænland, Ísland og Færeyjar,” segir Hrafn.

Hrafn hefur nýtt veturinn í að hugsa málin og segir að nú sé rétti tíminn til að snúa sér að öðru en Hróknum. „Ég ætla að taka mér tíma. Ég er að verða 55 ára í haust. Það er kannski ekki hár aldur en starfsævin er ekki endalaust og tíminn er mjög dýrmæt auðlind og verður dýrmætari með aldrinum og nú ætla ég að helga mig næsta verkefni. Skákin er í góðum málum. Við höldum áfram að sinna Grænlandi, engin hætta á öðru, við gerum það í gegnum Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands.” segir hann.

Nánar var rætt við Hrafn Jökulsson í Síðdegisútvarpinu á Rás 2.