Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Lilja segir tengslin við Framsóknarflokkinn engu skipta

Mynd: RÚV / RÚV
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, segir að álit lögmanna bendi í aðra átt en niðurstaða kærunefndar jafnréttismála varðandi ráðningu Páls Magnússonar í embætti ráðuneytisstjóra menntamálaráðuneytisins. Lilja segir engu skipta að Páll hafi tengsl í Framsóknarflokkinn.

Kærunefndin komst að þeirri niðurstöðu að Lilja hafi brotið jafnréttislög með ráðningu Páls. Í úrskurðinum segir að ýmissa annmarka hefði gætt af hálfu menntamálaráðherra við mat á Páli og Hafdísi Helgu Ólafsdóttur, sem kærði ráðninguna. Hæfisnefnd mat fjóra hæfasta og var  Hafdís Helga ekki þar á meðal. Auk Páls voru tvær konur og einn karl í þeim hópi.

„Við erum að fara yfir þennan úrskurð. Annars vegar erum við með hæfnisnefnd, sem kemst að allt annarri niðurstöðu, og hins vegar úrskurðarnefnd jafnréttismála. Nú er ég að meta það með lögmönnum hver eru næstu skref,“ sagði Lilja að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.

Tek þetta að sjálfsögðu mjög alvarlega

Hún segist hafa gert sjálfstæða athugun á málinu og fagnar því að umboðsmaður Alþingis ætli að taka það fyrir.

„Ég fór yfir þetta líka og gat ekki séð að það væru veigamiklar ástæður fyrir því að ég ætti ekki að fara eftir niðurstöðu hæfnisnefndar. Ég fagna því að þetta mál fái efnislega skoðun. Það er þannig að öll þau verk sem ég hef komið að á síðustu árum hafa alltaf verið unnin af algjörri fagmennsku. Ég hef alltaf fengið færasta og öflugasta fólkið til liðs við mig. Ég læt verkin tala og er stolft af því sem við höfum verið að gera,“ sagði Lilja.

Hún segir tengsl Páls við Framsóknarflokkinn ekki skipta neinu varðandi ráðninguna. Hún tekur niðurstöðu kærunefndarinnar alvarlega.

„Kærunefndin gegnir veigamiklu hlutverki. Þess vegna tek ég þetta að sjálfsögðu mjög alvarlega. Ég er búin að fá álit frá lögmönnum sem bendir í aðra átt. En auðvitað, þegar svona fer þá fer maður mjög gaumgæfilega yfir málin.“

Mat það að Einar Hugi væri hæfari

Í fréttum RÚV í gær var greint frá því að Lilja hafi farið gegn tillögu sérfræðinga í menntamálaráðuneytinu þegar hún skipaði Einar Huga Bjarnason sem formann fjölmiðlanefndar í nóvember. Samkvæmt minnisblaði til ráðherra var mælt með því að skipa sem formann, konu sem er einn helsti sérfræðingur í fjölmiðlarétti í landinu. Lilja valdi þess í stað karl sem hefur litla sem enga reynslu á sviðinu - en hefur setið í minnst átta nefndum á vegum Framsóknarflokksins. 

„Viðkomandi aðili er mjög hæfur. Ráðherra tekur ákvörðun um það. Það kemur tillaga um aðra manneskju. Ég mat það svo að hann væri hæfari, enda hefur viðkomandi samið fjölmiðlafrumvarpið og hefur mjög mikla reynslu enda einstaklega hæfur einstaklingur,“ sagði Lilja að loknum ríkisstjórnarfundi í dag.