Leita til Neytendasamtakanna vegna pakkaferða

05.06.2020 - 14:46
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Neytendasamtökin hafa fengið talsvert margar fyrirspurnir vegna vandamála við endugreiðslu á pakkaferðum, segir Breki Karlsson formaður NS. Fréttastofan greindi frá því í gær að hópi menntaskólanema, sem skipulagði útskriftarferð í sumar með ferðaskrifstofunni Tripical, hafi ekki tekist að fá ferð sína endurgreidda. Ferðaskrifstofan hafi hins vegar boðið aðra valkosti í staðinn, til að mynda að seinka ferðinni eða fara í fimm daga ferð til Hellu. Breki segir það rétt neytenda að hafna slíku.

Breki segir að samkvæmt lögum eigi neytendur rétt á endurgreiðslu ef útlit er fyrir verulegar vanefndir ferðaskrifstofu. 

„Ef það er veruleg vanefnd eða stefnir í verulega vanefnd, eða ef veruleg röskun er á ferðinni, þá er það skýlaus réttur neytenda að fá endurgreitt alveg upp í topp,“ segir Breki .

Að sögn Breka getur veruleg vanefnd til dæmis falist í breytingum á flugi eða gistingu. 

Breki segir að ferðaskrifstofum sé vissulega heimilt að bjóða aðra valkosti í staðinn ef verulegar vanefndir verða á samningum þeirra en ákvörðunin sé á endanum neytandans. 

„Það er að sjálfsögðu réttur ferðaskrifstofunnar að bjóða í rauninni hvað sem er, aðra ferð eða breytingu á ferðinni eða slíkt. En það er þá líka réttur neytandans að hafna því.“

 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi