Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hillir undir að 13 ára martröð ljúki

05.06.2020 - 17:04
epa08463379 (FILE) A file photograph showing Gerry (L) and Kate McCann (R) speaking during an interview about the release of their book on their daughter Madeleine McCann, in Lisbon, 22 May 2001. According to reports on 03 June 2020, a 43-year old German prisoner is identified as suspect in the disappearance of Madeleine McCann.  EPA-EFE/MIGUEL A. LOPES
 Mynd: EPA-EFE - LUSA
Þrettán ár eru nú liðin frá því að breska stúlkan Madeleine McCann hvarf þegar hún dvaldi á sumarleyfisstað í Portúgal ásamt foreldrum sínum og systkinum. Hún var aðeins þriggja ára og ekkert hefur spurst til hennar síðan.

Foreldrar lágu undir grun

Lögreglan í Portúgal rannsakaði málið án árangurs í eitt ár eftir hvarfið. Foreldrar Madeleine lágu undir grun og fengu réttarstöðu grunaðra. Að ári liðnu lýstu lögregluyfirvöld í Portúgal því yfir að rannsókn væri hætt og að foreldrarnir væru ekki lengur grunaðir.

Fimm árum síðar eða árið 2012, hvatti breska lögreglan, Scotland Yard, þá portúgölsku til að hefja rannsókn að nýju, en þar sem ekkert nýtt hafði komið fram, töldu yfirvöld í Portúgal ekki ástæðu til að byrja upp á nýtt. 

Telja 43 ára Þjóðverja hafa myrt Madeleine

Scotland Yard vann hins vegar að málinu bak við tjöldin og 2013 lýsti breska lögreglan því yfir að hún hefði hafið eigin rannsókn. Afrakstur hennar var að 38 manns lágu undir mismiklum grun um óhreint mjöl í pokahorninu, en það var fyrst í þessari viku sem lögregluyfirvöld í Portúgal, Bretlandi og Þýskalandi upplýstu að þau grunuðu 43 ára Þjóðverja, Christian Brückner, um að eiga sök á hvarfi stúlkunnar og myrt hana.  Í því felist að þýska lögreglan telur að  Madeleine sé látin. Breska lögreglan segir aftur á móti að ekki liggi sönnun fyrir um það og því sé málið enn rannsakað sem mannshvarf.  

Mara á bresku þjóðinni

Hvarf Madeleine hefur legið eins og mara á bresku þjóðinni síðan 2007. Fjölmiðlar fjalla reglulega um hvarfið og hin síðari ár samfélagsmiðlar. Alls kyns tilgátur og kenningar hafa verið settar fram um hvað orðið hafi af stúlkunni, sumar trúverðugar, aðrar fullkomlega galnar. Sorgleg örlög stúlkunnar verða fyrir vikið enn dapurlegri.

Lögreglan þurfti að fullvissa sig um að foreldrar Madeleine ættu ekki sök á hvarfi hennar.  Við bættust kjaftasögur og samsæriskenningar sem auðveldaði þeim síður en svo lífið. En nú sjá þau, og breska þjóðin, loks hilla undir að málið verði upplýst. Í fyrsta sinn fellur sterkur grunur á einn einstakan mann í rannsókn málsins.

Margdæmdur fyrir barnaníð og kynferðisbrot

Hinn grunaði, Christian Brückner, situr í steininum í Þýskalandi. Í lok síðasta árs var hann dæmdur í sjö ára fangelsi fyrir að nauðga 72 ára konu í Portúgal árið 2005. Brückner er barnaníðingur og kynferðisbrotamaður og hefur hlotið dóma fyrir kynferðisofbeldi, þjófnað og fíkniefnasmygl og -sölu.

Hann hefur dvalið langdvölum á sólarstöðum í Portúgal og var sannanlega í nágrenni við McCann fjölskylduna í maí 2007 þegar Madeleine hvarf. Lögregla í Portúgal hafði tal af honum, eins og hundruðum, jafnvel þúsundum annarra á sínum tíma, en ekki féll grunur á hann.

Ekki fyrr en fyrir þremur árum, þegar 10 ár voru frá hvarfi Madeleine. Þá bárust lögreglu í Þýskalandi, Bretlandi og Portúgal vísbendingar um Christian Brückner. Við tók þriggja ára vinna við að hafa upp á vitnum og loks í þessari viku greindu lögregluyfirvöld frá því að þau töldu sig hafa nægilega sterkar vísbendingar til þess að bendla Brückner við hvarfið. 

Hafa gengið í gegnum vítisloga

Kannski sér fyrir endann á 13 ára martröð McCann hjónanna,  þeirra Kate og Jerry.  Þau hafa þurft að ganga í gegnum hreint helvíti þennan tíma. Ofan á þá óendanlegu sorg að týna þriggja ára gömlu barni hafa þau þurft að glíma við erfiðleika sem ætla mætti að riði öllu venjulegu fólki að fullu.

Vissulega hafa þau notið stuðnings flestra, einkum hin síðari ár, en fljótlega eftir hvarfið voru þau sjálf grunuð um að hafa staðið að því og það leið rúmt ár þar til portúgalska lögreglan hreinsaði þau af þeim grun.

Af hverju skildu þau börnin eftir?

Bresku götublöðin fóru hamförum fyrstu mánuðina eftir hvarfið og gerðu sitt til að sá tortryggni í garð foreldranna og hvort þau segðu satt og rétt frá. Einkum beindu þau sjónum að þeirri ákvörðun hjónanna að skilja Madelanie eftir eina sofandi ásamt yngri tvíburasystkinum í orlofsíbúðinni að kvöldi til á meðan þau fóru ásamt vinahjónum á nálægan veitingastað í kvöldverð. Klukkutíma síðar þegar Kate McCann fer að huga að systkinunum, þá er Madeleine horfin.

Nagandi samviskubit

Blöðin spurðu hvers konar foreldrar skildu börn á þessum aldri ein eftir heima, jafnvel þótt sofandi væru og veitingahúsið aðeins í nokkur hundruð metra fjarlægð. Nagandi samviskubit hefur fylgt McCann hjónunum alla tíð síðan. Hvað ef..... hvað ef....

Og það er líklega þessi angi málsins sem hefur orðið til þess að allir Bretar þekkja þetta mál og óska þess heitast að það verði leyst. Allir foreldrar sjá sjálfa sig í McCann hjónunum og tengja við angist þeirra og örvæntingu. Talsmaður þeirra Clarence Mitchell sagði í viðtali við ITV sjónvarpsstöðina að þau trúi enn að Madeleine sé á lífi, þau óski þess eins að sannleikurinn komi í ljós þannig að þau öðlist frið. 

Brückner einn veit

Þýska lögreglan telur að Christian Brückner hafi ekki skipulagt ránið á Madeleine McCann. Hann hafi hins vegar verið búinn að skipuleggja innbrot í orlofsíbúð McCann hjónanna og notaði tækifærið þegar þau fóru út að snæða kvöldverðinn. Madeleine McCann kom upp í hendurnar á honum í innbrotinu. Og enginn, nema hugsanlega Christian Brückner, veit hver örlög hennar urðu.