Hættum að sjá gróðurinn vegna plöntublindu

Mynd: Björgvin Kolbeinsson / RÚV

Hættum að sjá gróðurinn vegna plöntublindu

05.06.2020 - 16:21

Höfundar

Í sítengdum samtíma og borgarsamfélagi á fólk í æ minni tengslum við plöntur og aðrar ómennskar lífverur. Jafnvel þar sem gróður leynist í umhverfinu tekur fólk verr eftir honum og á erfitt með að þekkja hann og greina muninn á ólíkum tegundum plantna. Þessi aftenging fólks frá náttúrunni og vangeta til að þekkja gróðurinn hefur nýlega fengið nafnið „plöntublinda.“

Hugtakið plöntublinda fór fyrst að dreifast út fyrir rúmum 20 árum og var skilgreint af grasafræðingunum Elisabeth Schussler og James Wandersee sem vangeta til að sjá eða taka eftir plöntum í eigin umhverfi. Þetta er sem sagt tregða fólks til að taka eftir gróðrinum þar sem hann er í kringum okkur og þessu tengt er að sjá ekki mun á ólíkum gróðri. 

Í grein Breska ríkisútvarpsins, BBC, um fyrirbærið er vísað í rannsóknir sem sýna að þegar fólki eru sýndar í örstutta stund myndir af plöntum, dýrum og öðrum hlutum þá taka þeir verst eftir sérkennum plantnanna. Schussler og Wandersee segi að eflaust spili inn í að plönturnar hreyfa sig ekki, vaxa oft nálægt hverri annarri í stórum hópum, eru oft svipaðar á litinn - svo heilinn hrúgar þeim saman undir safnheitinu gróður.

Heilinn er góður í að greina muninn á áþekkum hlutum, en það krefst æfingar og þekking á plöntum hefur nánast enga praktíska gagnsemi fyrir flesta einstaklinga í sítengdu borgarsamfélagi. Vissulega sjáum við plöntur eða ummerki um þær víða í hinu manngerða umhverfi: við kaupum ávexti af gróðurhúsagræddum runnum í stórmörkuðum, skreytum garða með reisulegum trjám og stofur með smekklegum hitabeltisjurtum. En þekking á plöntum sem vaxa villtar í nærumhverfi okkar fer minnkandi. Enda er gagnslaust fyrir heilann að geyma upplýsingar þegar þær hafa ekki praktíska skírskotun fyrir einstaklinginn.

Lífríkið hverfur úr tungumálinu

Rithöfundurinn Sverrir Norland leggur um þessar mundir lokahönd á bókina Stríð og kliður, sem hann segir fjalla um stríðið gegn náttúrunni og kliðinn í höfði okkar. Einn vígvöllur þessa stríðs og kliðs er sjálft tungumálið, þar sem ný orð tengd tækni koma inn í orðaforðann á kostnað orða sem tengjast lífheiminum.

Hann vísar til dæmis í dæmi úr bók breska rithöfundarins Roberts McFarlane, Kennileiti, um að í nýjustu útgáfu Oxford barnaorðabókarinna, Oxford Junior Dictionary,r séu horfin nöfn á mörgum algengum og vel þekktum plöntum á borð við Sóley, Fífil og Burkna, en í staðin eru komin tölvutengd orð á borð við viðhengi og talskilaboð.

„Skýringarnar voru þær að þetta þyrfti að endurspegla heim krakkanna. Ókei, gott og blessað, En krakkar læra líka það sem að þeim er haldið. En þetta er bara mjög ógnvekjandi staðfesting á því sem er að gerast. Við bara sjáum til dæmis ekki dýr – nema kannski kisur, hunda, hesta og eina og eina býflugu, ef einhver. En það er líka vegna þess að þeim er að fækka með ógnvænlegum hætti.“

Sverrir tengir fátækari orðaforða okkar um lífríkið við aukna eyðileggingu á þessum sama lífheimi. Vandamálið er að fólk finnur sig síður knúið til að standa vörð um eitthvað sem það getur ekki talað um. Það jafnvel óttast það sem það á ekki orð yfir. Það skiptir því máli að eiga orð yfir þessar lífverur.

Að sjá og finna samkennd með þeim

„Það er oft talað um það að plöntur séu eins og einhverskonar veggfóður fyrir aðra, til dæmis dýr,“ segir Bryndís H. Snæbjörnsdóttir, myndlistarkona og prófessor við Listaháskóla Íslands, og nefnir hvernig söfn tileinkuð plöntum endi oft á því að snúast um dýrin sem þar leynast.

Bryndís hefur skoðað þessa plöntublindu nútímamannsins í listaverkum ásamt samstarfsmanni sínum Mark Wilson. Þau tóku þátt í þverfaglegu verkefni í Svíþjóð sem nefnist Beyond Plant Blindness, Handan plöntublindu, en nú á dögunum kom út bók um framlag þeirra á vegum bresku bókaútgáfunnar The Green book.  „Hvernig getum við fengið fólk til að almennilega til að sjá plöntur?“ spyr Bryndís.

Verkefnið átti sitt heimili í grasagarðinum í Gautaborg, en Bryndís segir að jafnvel sé plöntublindni landlæg – fólk nálgist gróðurinn oft fyrst og fremst út frá fagurfræðilegri upplifun gestanna, mannfólksins. „Þetta snýst allt um það að láta þetta blómstra og brosa við okkur þegar við komum í garðinn, annars er þessu bara hent.“

Það er því djúpt á blindunni. Hún er ein birtingarmynd þess viðhorfs að álíta plöntur neðstar í virðingarstiga lífveranna. Það hefur verið bent á hvernig maðurinn hefur tamið sér að hugsa sjálfan sig sem miðju alheimsins, og aðrar lífverur, umhverfið, náttúran, og nú geimurinn sé einfaldlega eitthvað sem hann þarf að temja, ná stjórn á og færa sér í nyt, efniviður fyrir neyslu hans og lífsgæði. Kannski þurfum við að breyta sjálfri hugsun mannsins til að losna við plöntublinduna. Þessari mannmiðjukenningu hafa ýmsir heimspekingar reynt að grafa undan á undanförnum árum, til að mynda þeir sem kenna sig við hlutmiðaða verufræði (e. object oriented ontology).

Tengdar fréttir

Umhverfismál

20% fækkun plöntu- og dýrategunda á landi

Tónlist

Tónlist fyrir tunglið

Bókmenntir

Plöntur lifa án okkar en við ekki án þeirra

Myndlist

Pottaplöntur og breytt náttúruskynjun