Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fólk með lágar tekjur átti síður kost á fjarvinnu

05.06.2020 - 09:36
Mynd með færslu
 Mynd: BSRB
Fólk með lágar tekjur og litla menntun átti síður kost á að vinna í fjarvinnu vegna Covid-19 faraldursins en fólk með háar tekjur og mikla menntun. Þetta sýna niðurstöður könnunar sem BSRB lét gera á áhrifum Covid-19.

Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, segir mikilvægt að aðgerðir til að auka sveigjanleika á vinnufyrirkomulagi, sem margir kalli nú eftir, nái til allra.

Mismikill sveigjanleiki eftir tekju- og menntunarstigi

Tæp 20 prósent fólks með heimilistekjur undir 400 þúsund krónum á mánuði áttu kost á fjarvinnu. Á heimilum fólks með mánaðartekjur yfir einni milljón er hlutfallið mun hærra, nærri 70 prósent. Þeir sem lokið hafa framhaldsnámi á háskólastigi voru fjórum sinnum líklegri til að eiga kost á fjarvinnu en þeir sem aðeins hafa lokið grunnskólaprófi.

Möguleikar fólks á að vinna heima í samráði við yfirmann til að sinna börnum vegna skertrar skólastarfsemi voru kannaðir sérstaklega og þar kom sama mynstur í ljós. Tekjulægri hópar og minna menntaðir voru mun líklegri til að taka launalaust leyfi til að sinna börnum eða nota orlofsdaga.

Mikilvægt að aðgerðir til að auka sveigjanleika nýtist öllum

Í samtali við fréttastofu segir Magnús Már Guðmundsson, framkvæmdastjóri BSRB, þetta skipta máli í umræðunni um aukinn sveigjanleika í vinnu. Sérstaklega þurfi að huga að þeim hópum sem nutu takmarkaðs sveigjanleika í Covid-19 ástandinu. Sömu hópar séu líklegir til að búa við minni sveigjanleika á vinnumarkaði almennt. Oftar en ekki sé um framlínufólk að ræða, fólk sem sannarlega þurfi á sveigjanleika og styttingu vinnuvikunnar að halda. Könnunin sem vísað er í var gerð af Maskínu fyrir BSRB.

Könnunin fór fram dagana 24. apríl - 4. maí 2020 og svarendur voru 1050 talsins.