Fimm ferlega þétt á föstudegi

Mynd með færslu
 Mynd: Ninja Tune - Facebook

Fimm ferlega þétt á föstudegi

05.06.2020 - 11:44

Höfundar

Stutt vika á enda og tími til komin að keyra sig í gang aftur með löðrandi seigu hommakántrí, endurhljóðblandaðri vísindaskáldskaparkvikmyndatónlist, kóreskum bransabyrjanda, bræðrum sem leysa hústónlistarvandann og áhugaverðu verkefni fyrir mannanafnanefnd.

Orville Peck - No Glory In the West

Heimsmeistarinn í hommúnisma og paródíu, Johnny Cash-snillingurinn Orville Pack, sendi frá sér annan söngulinn á árinu fyrir stuttu sem er snilldarlagið No Glory In The West. Lagið sýnir hans allra bestu hliðar og maður hefur ekki hugmynd um hvort honum er alvara eða bara að grínast.


Hans Zimmer & Alan Walker – Time

Tónskáldið Hans Zimmer er sennilega best þekktur fyrir tónlistina úr mynd Christophers Nolan, Inception, sem kom út fyrir áratug. Alan Walker hefur alltaf dreymt um að vinna með tónskáldinu og fékk að endurhljóðblanda Time sem er heldur betur að slá í gegn á alnetinu.


Park Hye Jin - Like this

Tónlistarkonan Hye Jin er frá Kóreu og er nýbúin að læra á hljóðforritið Ableton en lærdómurinn skilaði henni samning við Ninja Tune. Hún sækir innblástur í síðhústónlistarmennina Duke Dumont, Disclosure og Jamie XX og er ekkert að láta tónlistarsöguna trufla sig og það virkar nógu vel fyrir hana til þess að skrifað sé um hana á RÚV.is.


Disclosure - Energy

Síðan bræðurnir Howard og Guy gáfu út Latch með Sam Smith hefur allt sem þeir koma nálægt breyst í dollara og pund. Þeir hafa í rauninni ekki haft tíma til að sinna sínum eigin ferli síðustu ár vegna anna við að hjálpa öðrum tónlistarmönnum. Nú er hins vegar farið að styttast í að þriðja plata þeirra Energy komi út, dansþyrstum húsfíklum til mikillar ánægju en þeir þurfa samt að bíða til enda ágúst.


Little Simz - Might Bang, Might Not

Þegar maður heitir Simbiatu Abisola Abiola Ajikawo. Þá er ekki skrítið að mannanafnanefnd geri athugasemdir og fái þig til að kalla þig bara Little Simz í staðinn. En að öllu gríni slepptu þá er Simbiatu Abisola Abiola Ajikawo enginn byrjandi í bransanum og hefur frá unga aldri unnið fyrir sér sem leikkona og söngkona í Bretlandi með góðum árangri og Might Bang, Might Not er algjör negla af nýja mixteipinu hennar.