Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Engin leið að endurgreiða öllum

Mynd með færslu
 Mynd:
Elísabet Agnarsdóttir, eigandi ferðaskrifstofunnar Tripical segir því miður enga leið að endurgreiða öllum þeim nemendahópum sem bókað hafa útskriftarferðir hjá fyrirtækinu. „Staða okkar er því miður mjög óljós og er búin að vera síðastliðna þrjá mánuði,“ segir hún. Rætt var við hana í sjöfréttum RÚV.

Fyrirtækið vænti þess að geta boðið þeim sem bókað hafa ferðir inneignarnótu, en í gær varð ljóst að frumvarp ferðamálaráðherra þess efnis næði ekki fram að ganga. Það sé erfitt fyrir ferðaskrifstofur að þurfa að endurgreiða öllum 100%.

Segir Elísabet einhverja eiga rétt á að fá endurgreitt. Aðrir eigi það ekki og þeim sé Tripical að bjóða aðra kosti eins og inneign eða breytingu ferðar. 

Útskriftarnemar við Menntaskólann á Akureyri eru óánægðir með að fá Ítalíuferð, sem átti að fara í júní, ekki endurgreidda og íhuga að leita réttar síns. Ferðin var ekki blásin af, þess vegna fæst hún ekki endurgreidd. Vandinn er að nemendunum hugnast fæstum að fara. Skrifstofan bauð þeim í staðinn að fara seinna, á næsta ári, eða fara í ferð til Hellu og áttu þeir að fá sólarhring til að ákveða sig. Það hugnaðist þeim ekki heldur. 

„Við erum að reyna að koma til móts við okkar viðskiptavini,“ segir Elísabet og bætir við að þeim finnist ömurlegt að nemendurnir fái ekki sína útskriftarferð.

Verði Tripical hins vegar gert að endurgreiða öllum sem eiga bókaða ferð hjá þeim, feli það ekkert annað í sér en að fyrirtækið verði gjaldþrota.