Ekki lengur móðgun að bjóða sig fram gegn forseta

Mynd: Þór Ægisson / RÚV
Sagnfræðiprófessor segir að forsetar geti ekki lengur vænst þess að sitja eins lengi og þeir vilja. Það sé ekki lengur litið á það sem móðgun að bjóða sig fram gegn sitjandi forseta. Guðni Th. Jóhannesson er fyrsti forsetinn sem fær mótframboð eftir sitt fyrsta kjörtímabil.

Þetta er fjölbreytt starf

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, var ósáttur við að í viðtali við hann í Speglinum í gær var nær einungis fjallað um völd forseta í tengslum við málskotsréttinn. Guðmundur Hálfdánarson, prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, segir að vissulega snúist störf forseta fyrst og fremst um annað en málskotsréttinn.Hann bendir á að frá upphafi verið rætt um hvort þörf er á þessu embætti. Embætti sem snúist um að klippa á borða og formlegar athafnir.

„En flest ríki eru með svona embætti. Með einhvern sem kemur fram fyrir hönd ríkisins og er þá eins konar ríkishöfuð eins og sagt er á ensku. Forsetinn túlkar á vissan hátt þjóðarandann. Þjóðin á einhvern veginn að sameinast í honum. Þetta er auðvitað það sem forsetinn gerir. Forsetarnir eru málsvarar fyrir ákveðna hluti. Þeir mæta við ákveðnar athafnir. Þeir lögmæta ákveðna hluti til dæmis með því að opna ráðstefnur sem gefur þeim ákveðið vægi. Þeir heimsækja skóla og ferðast um landið. Þetta er alveg gríðarlega fjölbreytt starf. Ég vil ekki gera of lítið úr þessu þó sumir tali um þetta sem einhverjar puntudúkkur,“ segir Guðmundur. Hann hafi ekki orðið var við annað en að Íslendingar vilji hafa þetta svona.

Guðni sagði að það mætti ekki setja forseta í spennitreyju þannig að ekkert svigrúm væri fyrir viðkomandi forseta til að móta embættið. Í tímans rás hafa forsetar mótað það eftir eigin höfði en þó í samræmi við stjórnskipun landsins. En hvernig hefur Guðna gengið að setja eigin svip á embættið? Guðmundur segist ekki vera alveg hlutlaus því þeir störfuðu saman á sínum tíma.

Embættið breytist í takt við tíðarandann

Mér finnst að honum hafi tekist þetta vel. Hann kemur með nýjan tón inn í embættið sem ég held að hafi ekki verið sleginn áður,“ segir Guðmundur. Það mótist af tvennu. Annars vegar af honum sjálfum og fjölskylduaðstæðum hans. Hann er með ung börn, hann er mjög alþýðulegur í framkomu og á auðvelt með að tala við fólk af öllum stéttum samfélagsins.“ Embætti mótist um leið af tíðarandanum sem er til dæmis allt annað en í tíð Sveins Björnssonar forseta.“ „Ef að forseti nú myndi hegða sér eins og Sveinn Björnsson og klæða sig eins og hann þá myndi hann vera fígúra og enginn tæki mark á honum,“ segir Guðmundur.

Í viðtalinu í Speglinum kom fram viðhorf forsetans til synjunarvaldsins. Hann útilokar alls ekki að beita því en til þess þurfi að koma margar áskoranir án þess að hann nefni tiltekinn fjölda.

„Hann lýst því hvernig hann sér fyrir sér að þessum málskotsrétti væri beitt. Ef hann fengi lög fyrir framan sig sem væru þess eðlis að hann teldi sig ekki geta samvisku sinnar vega ekki geta skrifað undir þau. Annað hvort myndu þau stríða gegn stjórnarskrá eða einfaldlega brjóta þau siðferðisgildi sem hann teldi mikilvæg.“ Guðmundur rifjar upp að Vigdís Finnbogadóttir lýsti því yfir á sínum tíma að hún myndi ekki skrifa undir lög sem kvæðu á um dauðarefsingu. Því máli hefði hún vísað til þjóðarinnar. Það séu væntanlega þannig mál sem Guðni hafi í huga. „Hins vegar sagði hann að hann myndi beita málskotsréttinum ef þær aðstæður kæmu upp og þá beitti hann svipuðum rökum og Ólafur Ragnar að það væri þá þessi gjá á milli þings og þjóðar sem birtist þá í miklum fjölda undirskrifta eða eitthvað slíkt,“ segir Guðmundur.

Guðni vill líka að íhugað verði að breyta stjórnarskránni þannig að ákveðinn fjöldi kjósenda geti farið fram á þjóðaratkvæðagreiðslu um lög án milligöngu forseta. Forsetakosningar verða eftir þrjár vikur.

Mótframboð bara jákvætt

Guðni er fyrsti forsetinn sem fær mótframboð eftir aðeins eitt kjörtímabil. Bæði Vigdís Finnbogadóttir og Ólafur Ragnar Grímsson fengu mótframboð eftir tvö kjörtímabil. Fyrir þeirra tíð þekktist ekki að boðið væri fram gegn sitjandi forsetum. En er þetta að breytast? 

Já, ég held það, segir Guðmundur. Flestar forsetakosningar sem boðaðar hafa verið á þessari öld hafi farið fram. Tíðarandinn hafi breyst.
„Mönnum þótti þetta hálfgerð móðgun við forsetann þegar boðið var fram gegn Vigdísi hér um árið. Það er ekki þannig núna. Mönnum finnst þetta kannski frekar vera mikill fjáraustur. En þetta er lýðræði og að mörgu leyti held ég að þetta sé bara jákvætt. Ég held að það sé gott að ræða þá um eðli embættisins sem er til sífelldrar endurskoðunar. Það skerpir á því hvernig sitjandi forseti sér það fyrir sér. Það gerir það að verkum að þeir verða þá að standa sig. Þeir geta ekki búist við að sitja eins lengi og þeir vilja. Þeir þurfa þá að standa skil á hvernig þeir hafa staðið sig. Ég held að það sé bara jákvætt.“

 

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi