Vorhret og vetrarástand á fjallvegum

04.06.2020 - 11:08
Mynd með færslu
Vorlaukar reyna að brjótast í gegnum snjóinn í lok mars.  Mynd: Anna Kristín Jónsdóttir - RÚV
Akstursskilyrði geta orðið varasöm á fjallvegum á Norðausturlandi og Austurlandi vegna kólnandi veðurs og élja. Ökumenn eru beðnir að fara með gát enda flestir komnir á sumardekk. Veðurfræðingur segir hretið smávægilegt og eigi ekki að hafa áhrif á dýralíf.

Slydda verður seinni partinn í dag á fjallvegum, frá Öxnadalsheiði og austur á firði. Hiti verður ofan við frostmark á láglendi svo þar verður lítilsháttar bleyta. Í nótt kólnar og verður smávægilegur éljagangur á fjallvegum alveg niður í 100 metra hæð og krapi í byggð. Því getur myndast hálka og vetrarástand á hærri fjallvegum sem varir til laugardags. 

Vegagerðin tilbúin að hálkuverja

Það er spáð frosti á Öxnadalsheiðinni alveg fram á sunnudag. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur Vegagerðarinnar, á þó ekki von á því að hálkan haldist yfir daginn nema ef til vill á allra hæstu fjallvegum. Til þess þurfi meiri kulda og ákveðnari vind. 

Ökumenn þurfi þó að fara með öllu gát og gera ráðstafanir ætli þeir sér að ferðast yfir nóttina, eða bíða með ferðina. Hann á von á því að Vegagerðin þurfi að hálkuverja og segir þá vera í startholunum. Það sé varhugarvert þegar hret komi svona fram á sumarið, fólk sé komið á sumarbúnað og ekki viðbúið vetraraðstæðum. Mikið hafi verið um slys í aðstæðum sem þessum í tímans rás. 

Hret á þessum tíma ekki óvanalegt

Hann segir hretið ekki koma á óvart enda sé það ekki óvanalegt. Fimmta júní 2001 hafi gert mikið hret með margvíslegum erfiðleikum. Þá fenti fé og varp fugla misfórst. Hann segir þetta hret aðeins smávægilegt og eigi ekki að hafa áhrif á dýralíf. Aðfaranótt laugardags geti hins vegar orðið tveggja stiga frost á Akureyri sem geti haft áhrif á kartöflurækt.

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi