Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Verst stöddu fyrirtækin geta ekki beðið

Mynd með færslu
 Mynd:
Fyrirtæki sem horfa fram á verulegan rekstrarvanda eiga á hættu að geta ekki nýtt úrræði stjórnvalda um stuðning úr ríkissjóði vegna uppsagna. Þau sem sjá sér ekki fært að fjármagna launakostnað í 30 daga eiga ekki kost á endurgreiðslu.

Til þess að fá endurgreiðslu frá ríkinu vegna greiðslu launa í uppsagnarfresti þurfa atvinnurekendur fyrst um sinn að greiða launin, en 85 prósent endurgreiðsla fæst úr ríkissjóði 30 dögum síðar.

Í samtali við fréttastofu RÚV segir Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, biðina tæknilegan vanda sem geti valdið fyrirtækjum sem standa frammi fyrir algjöru tekjufalli miklum vandræðum.

Halldór Benjamín segir vandann felast í því að eftir að hafa greitt launin eignist atvinnurekandi kröfu á ríkisskattstjóra um endurgreiðslu, og þá taki við 30 daga bið eftir að skatturinn fallist á að fyrirtæki uppfylli skilyrði fyrir endurgreiðslu.  

Ferðaþjónustufyrirtæki í vanda 

Hótel Saga rær nú lífróður. Bændablaðið greindi frá því í morgun að hluti rekstrarvanda hótelsins fælist í því að brúa bilið milli launagreiðslu í uppsagnarfresti og endurgreiðslu úr ríkissjóði. 

Gunnar Þorgeirsson, formaður Bændasamtakanna, segir að þótt vandi Hótel Sögu sé margþættur sé fjármögnun á launakostnaði veigamikill þáttur. Hann segir fjölda ferðaþjónustufyrirtækja glíma við sama vanda, þar á meðal ferðaþjónustubændur innan samtakanna.

Gunnar hefur áhyggjur af afkomu ferðaþjónustufyrirtækja næstu vikur og mánuði. Hann segir ótal spurningum ósvarað um afléttingu ferðatakmarkana 15. júní og óttast að ferðaþjónustan taki hægt við sér.  

Úrræðið sett fram til að forða fyrirtækjum frá gjaldþroti 

Samkvæmt lögunum sem liggja til grundvallar uppsagnaleiðinni og samþykkt voru á Alþingi í síðustu viku er úrræðinu ætlað að „tryggja þeim atvinnurekendum stuðning sem horfa fram á umfangsmikið tekjutap vegna faraldurs kórónuveiru og aðgerða sem honum tengjast”.

Þá sagði forsætisráðherra í viðtali við Morgunblaðið á þriðjudag að úrræðið væri sett fram til að forða fyrirtækjum frá gjaldþroti. Hefur í þessu samhengi verið vísað til þess að mikilvægt sé að tryggja að ekki verði tafir á því að starfsmenn fyrirtækja í miklum rekstrarvanda fái greidd laun á uppsagnarfresti.