Var boðin fimm daga ferð til Hellu í stað Ítalíuferðar

04.06.2020 - 22:48
Edda Kristín Bergþórsdóttir
Edda Kristín Bergþórsdóttir Mynd: Edda Kristín Bergþórsdóttir - Aðsend
„Allir vilja fá endurgreitt,“ segir Edda Kristín Bergþórsdóttir sem útskrifast í vor frá Menntaskólanum á Akureyri og situr í ferðaráði stúdentsefna skólans. Útskriftarnemarnir höfðu skipulagt útskriftarferð til Ítalíu sem fara átti í með ferðaskrifstofunni Tripical  8. júní og hafði ferðin verið greidd að fullu. Í dag fengu þau skilaboð um að þau yrðu að fara í ferðina eða velja á milli fjögurra valkosta og taka ákvörðun á morgun. Nemendurnir íhuga nú að leita réttar síns.

Þegar landamærum Ítalíu var lokað fengu nemendurnir þau skilaboð frá ferðaskrifstofunni að þeim stæði til boða að fara til Krítar í staðinn. Edda segir að það hafi ekki lagst vel í hópinn og skömmu síðar hafi það tilboð verið dregið til baka.

Þau hafi verið boðuð á fund fyrir nokkru þar sem þeim var sagt að þau myndu annað hvort fá endurgreitt frá ferðaskrifstofunni eða fá þar inneign. „Okkur var sagt að það færi eftir því hvernig frumvarpið um endurgreiðslur færi,“ segir Edda. „Síðan heyrðum við ekkert meira frá þeim og margir höfðu miklar áhyggjur. Ferðin kostaði tæpar 200 þúsund á mann og við vorum búin að borga hana að fullu, við borguðum allt í nóvember. Þetta er gríðarlega mikill peningur fyrir krakka á okkar aldri.“

Fengu fjóra valkosti

Fulltrúar í ferðaráðinu hafi ítrekað reynt að ná tali af talsmönnum Tripical án árangurs, segir Edda. „Síðan sendu þau póst á allan árganginn í dag þar sem þau gáfu þeim, sem ekki vilja fara í ferðina 8. júní, fjóra valkosti. Að fara í fimm daga ferð á Hellu, að fara til Ítalíu eða Krítar seinna í sumar, að fara til Ítalíu eða Krítar á næsta ári eða að fá inneign sem er hægt að nota í fjögur ár. Við eigum að svara póstinum fyrir klukkan 14 á morgun. Við höfum reynt að ná í einhvern hjá ferðaskrifstofunni í allan dag, en ekkert gengið.“

Hvorki breytt né aflýst

Í póstinum frá Tripical segir meðal annars að sífellt fleiri lönd hafi nú opnað landamæri sín. „Ítalía hefur opnað landamæri sín og í dag er ljóst að mögulegt er að fara í fyrirhugaða útskriftarferð. Ferð útskriftarnema MA til Ítalíu er enn þá bókuð og hefur hvorki verið breytt né aflýst. Því stendur ekkert í vegi fyrir því fara í umrædda ferð eins og hún var bókuð til Ítalíu þann 8. júní nk.,“ segir í póstinum 

Um 190 eru í hópi útskrifarnema MA, að sögn Eddu. „En þetta er um 600 manna hópur í heildina, því þarna áttu líka að vera krakkar úr öðrum skólum. Ég veit ekki hver staðan er hjá þeim.“

Hvað ætlið þið að gera? „Við ætlum að reyna allt til að fá þetta endurgreitt. Ég trúi ekki öðru en að það gangi upp.“

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi