Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Væntir handtakna á Íslandi og í Angóla í Samherjamálinu

04.06.2020 - 12:42
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot/Confidente
Saksóknari í Namibíu væntir þess að fólk verði handtekið á Íslandi og í Angóla vegna rannsóknar Samherjaskjalanna. Þetta er haft eftir honum í namibísku blaði í dag. Namibísk yfirvöld vinni dag og nótt að því að ljúka rannsókn málsins.

Rúmlega hálft ár er síðan Kveikur, í samstarfi við Wikileaks, Stundina og Al Jazeera, sagði frá því að útgerðarrisinn Samherji hefði síðustu ár greitt háttsettum mönnum í Namibíu og venslamönnum þeirra meira en milljarð króna til að komast yfir kvóta

Lögreglurannsókn stendur yfir og eru sjö í haldi í Namibíu. Þarlendur dómari hafnaði því í gær að fastsetja dagsetningu fyrir réttarhöld og frestaði málinu til 28. ágúst, samkvæmt frétt blaðsins Namibian Sun.

Lögmaður eins sakborninganna er sagður hafa gagnrýnt drátt á rannsókninni, og hann saki yfirvöld um að notfæra sér að hafa sakborninga í haldi án þess að aðhafast í málinu.

Haft er eftir Ed Marondedze saksóknara að namibísk yfirvöld vinni dag og nótt við að ljúka rannsókninni en þau þurfi meiri tíma. Hann segir að rannsóknin teygi sig til Angóla, Kongó, Simbabve, Spánar, Íslands, Kýpur, Dúbaí, Svíþjóðar og Noregs.

Í gær kom fram í fréttum að namibísk yfirvöld hefðu óskað eftir aðstoð alþjóðalögreglunnar Interpol við rannsóknina, og Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari staðfesti í samtali við fréttastofu í gær að embætti hans hefði verið í samskiptum við Interpol en sagðist ekki geta tjáð sig neitt frekar um málið.

Í Namibian Sun í dag er haft eftir saksóknaranum Marondedze að hann vænti þess að fleiri verði handteknir vegna málsins, í Angóla og á Íslandi. Ólafur Þór Hauksson sagði í samtali við fréttastofu í dag að réttarbeiðnir frá Namibíu væru í réttum farvegi en takmarkað væri hversu mikið hann gæti tjáð sig um rannsókn sem væri á hendi yfirvalda í Namibíu.