Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Umboðsmaður Alþingis með ákvörðun Lilju til athugunar

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsdótt - RÚV
Umboðsmaður Alþingis er með til athugunar ákvörðun Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra um skipan í embætti ráðuneytisstjóra. Lögmaður eins umsækjanda staðfestir að kvörtun hafi verið send þangað. Lilja er meðal annars sökuð um brot á stjórnsýslulögum. 

Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Lilja hefði brotið gegn jafnréttislögum með því að skipa Pál Magnússon í embættið.

Sú sem kærði skipanina, Hafdís Helga Ólafsdóttir, sendi jafnframt kvörtun til Umboðsmann Alþingis, en í greinargerð Hafdísar til kærunefndar jafnréttismála er því haldið fram að menntamálaráðherra hafi brotið gegn rannsóknarreglu stjórnsýslulaga með því að leggja mjög gallaða umsögn hæfnisnefndar til grundvallar gagnrýnislaust.

Hafdís var ekki ein fjögurra sem hæfnisnefnd mat hæfasta meðal umsækjenda um stöðu ráðuneytisstjóra. Í úrskurðinum segir að ráðherra hafi meðal annars vanmetið Hafdísi í samanburði við Pál í nokkrum meginþáttum, svo sem hvað varðar menntun, reynslu af opinberri stjórnsýslu og leiðtogahæfileika. Lilja hefur sagt að hún hafi farið að ráðleggingum nefndarinnar við skipanina en lagt á þær sjálfstætt mat.

Verulega skorti á rökstuðning menntamálaráðherra

Í úrskurði kærunefndar jafnréttismála segir að verulega hafi skort á efnislegan rökstuðning menntamálaráðherra í málatilbúnaði hennar fyrir nefndinni. Lilja hafi ekki brugðist við fjölda athugasemda Hafdísar til nefndarinnar, þótt ríkt tilefni hafi verið til, að mati kæru nefndarinnar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Hafdísar var að hluta til kvartað til Umboðsmanns undan sömu atriðum og til kærunefndar en kvörtunin sneri einnig að öðrum atriðum, meðal annars hæfni og störfum nefndarinnar og brotum á stjórnsýslulögum.

Meðal ákvæða sem Hafdís telur að hafi verið brotin varða rannsóknarregluna, andmælaregluna og brot á reglum um aðgang að gögnum málsins en Hafdís var í fyrstu synjað um aðgang að þeim.