Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Tók mörg ár að fatta að lífið er meira en körfubolti

Leiðir Helena Sverrisdóttir Hauka til sigurs á heimavelli í kvöld? - Mynd: Tomasz Kolodziejski / RÚV

Tók mörg ár að fatta að lífið er meira en körfubolti

04.06.2020 - 11:56
Helena Sverrisdóttir, ein fremsta körfuboltakona landsins og nýr aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna hjá Val, verður ekki með liðinu í upphafi leiktíðar nú í haust því hún á von á sínu öðru barni. Helena var gestur í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun.

Helena var nýlega ráðin sem aðstoðarþjálfari Vals og mun hún sinna því hlutverki ásamt því að spila, þegar hún hefur aftur getu til. Hún hefur spilað með Val síðan 2018 og leiddi liðið til sigurs á sínu fyrsta tímabili með liðinu en Valskonur lönduðu bikarmeistaratitli, deildarmeistaratitli og Íslandsmeistaratitli árið 2019.

Fresta þurfti úrslitakeppninni á þessu tímabili útaf Covid-19.

„Við vorum búin að tryggja okkur deildarmeistaratitilinn og í leiðinni ætluðum við okkur að toppa í úrslitakeppninni þannig að það var auðvitað mjög svekkjandi að fá ekki tækifæri til þess að klára,“ sagði Helena Sverrisdóttir í viðtali við Morgunútvarpið á Rás 2 í dag. 

Hún segir þó að þetta hafi verið rétta ákvörðunin, í stað þess að vera hangandi í loftinu í marga mánuði og ekki vita hvort tímabilið væri búið eða ekki. „Auðvitað er þetta grautfúlt, þetta er eitthvað sem þú ert búin að vera vinna að kannski í 10 mánuði. Þannig að eins fúlt og þetta var þá held ég samt að þetta hafi verið rétt ákvörðun. Núna byrjar tímabilið aðeins fyrr en það hefur verið að gera. Við byrjum að spila á Íslandsmótinu í september og það verður upphitunarmót sem byrjar í ágúst.“

Það var tilkynnt í apríl að Helena yrði aðstoðarþjálfari meistaraflokks. Hún segir að þegar Darri Freyr Atlason tilkynnti liðinu að hann ætlaði að hætta þá hafi hún strax farið að hugsa hver yrði næsti þjálfari. Hún segist hafa mikinn áhuga á því að þjálfa og er virkilega spennt fyrir þessu tímabili. „Ég hef verið að þjálfa yngri flokka og sagði bara strax við stjórnina að ef að þetta er eitthvað sem þau vildu skoða þá væri ég alveg tilbúin í að vera aðstoðarþjálfari.“

„Þetta er svona svipað og ég var að gera hjá Haukunum, þá var ég spilandi aðstoðarþjálfari. Fyrir áramót mun ég ekkert spila en get þá vonandi bara hjálpað enn þá meira.“ 

 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Og þá verðum við fjögur

A post shared by Helena Sverrisdottir (@helenasverris) on

Helena á von á sínu öðru barni. Hún segir að það geti verið flókið að hugsa um barneignir þegar þú ert atvinnukona í íþróttum. „Þetta er atvinna mín að spila körfubolta og manni finnst eins og maður sé einhvernveginn að gera eitthvað rangt með því að stofna fjölskyldu.“ Hún segir að hún hefði líklega verið búin að eignast annað barn ef hún væri ekki að spila körfubolta en fyrir íþróttakonur sé tíminn aldrei réttur.

„Maður lærir það með aldrinum að lífið er meira en körfubolti, þó það hafi tekið mig mörg ár að skilja það.“ Hún sé þó alls ekki tilbúin til að hætta og stefnir á að koma eins fljótt og hún getur á völlinn án þess að fara illa með líkamann.

Viðtalið við Helenu Sverrisdóttur má heyra í heild sinni í spilaranum hér að ofan.