Spyr hvernig stytta á biðtíma í forsjármálum

Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - Kveikur
Umboðsmaður Alþingis hefur óskað eftir nánari upplýsingum frá dómsmálaráðuneytinu um hvernig koma á í veg fyrir tafir á afgreiðslu fjölskyldumála hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu. Mörg dæmi eru um að slík mál hafi tafist. 

Umboðsmaður óskaði fyrst upplýsinga um viðbrögð við töfum í janúar. Fyrirspurnin var send í kjölfar þess að einstaklingur kvartaði til umboðsmanns undan umtalsverðum töfum á máli sem varðar umgengni við barn.

Sömuleiðis óskaði umboðsmaður eftir upplýsingum um hvort ráðuneytið hefði brugðist við töfum á þinglýsingum og skráningu skjala.  

Dómsmálaráðuneytið svaraði erindinu í febrúar. Þar kom fram að þegar hefði verið gripið til aðgerða til þess að stytta biðtíma vegna þinglýsinga og skráninga, meðal annars með því að endurskoða verklag og ráða fleiri fulltrúa til þess að sinna þinglýsingum.

Þá hafi fjárheimild vegna sýslumannsembættanna verið hækkuð um 150 milljónir í fjárlögum ársins 2020. Áformað sé að verja hluta þessa fjármagns í aðgerðir til þess að stytta biðtíma. Umboðsmaður hefur nú óskað eftir frekari upplýsingum um í hverju aðgerðirnar felist. 

Biðtími í umgengnismálum allt að fimm ár 

Biðtími í forsjár- og umgengnismálum hefur verið til umræðu á Alþingi en Björn Leví Gunnarsson lagði fram fyrirspurn um meðallengd slíkra mála til Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra síðasta haust.

Í skriflegu svari dómsmálaráðherra við  fyrirspurn Björns Levís kemur fram að biðtími eftir viðtali hjá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu vegna breytinga á forsjá og/eða umgengni sé um sjö vikur en hins vegar getur biðtíminn verið ívið lengri ef um ágreiningsmál er að ræða. Lengsti tími sem liðið hefur í slíku máli eru 220 dagar. 

 

 

Meðalfjöldi daga frá því að beiðni um breytingu á forsjá og/eða umgengni berst sýslumannsembættinu og þar til máli lýkur sé hins vegar 473 dagar í umgengnismálum en 64 dagar í forsjár- og meðlagsmálum.

Lengsti tími í umgengnismáli er rúm fimm ár og lengsti tími í forsjár- og meðlagsmáli tæp þrjú ár.  

Engar upplýsingar frá ráðherra

Dómsmálaráðherra útlistaði ekki nánar hvernig aðgerðum embættisins til þess að stytta biðtímann er háttað, hvorki í bréfinu til umboðsmanns Alþingis né í skriflegu svari við fyrirspurn Björns Levís.

Eftir að svör frá dómsmálaráðherra bárust umboðsmanni í lok febrúar hefur honum borist fjöldi ábendinga um tafir á málsmeðferð, bæði í fjölskyldumálum og málum á öðrum sviðum og því ljóst að vandinn er enn til staðar.  

Umboðsmaður væntir þess að svar frá dómsmálaráðuneytinu um hvað felist nánar í boðuðum aðgerðum vegna tafa á málsmeðferð hjá sýslumanni berist eigi síðar en 24. júní næstkomandi.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi