Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Skynsamlegt að taka lítil skref við opnun landamæra

04.06.2020 - 18:55
Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Hagfræðiprófessor segir mikilvægt að stíga varlega til jarðar við opnun landamæranna. Hagsmunir fárra megi ekki verða til þess að heilsu og afkomu annarra sé stefnt í hættu.

Þarf að meta áhættuna

Til stendur að losa um ferðatakmarkanir með því að skima alla sem koma til landsins frá 15. júní, nema þeir fari í tveggja vikna sóttkví eða framvísi gildu vottorði. Gylfi Zoëga, prófessor í hagfræði, segir mikilvægt að meta áhættuna sem hlýst af því, til dæmis ef faraldurinn tekur sig upp á ný hér í haust. „Það versta sem getur gerst er að það verði jafn mikill eða verri faraldur í haust og í vetur, því að það sem er gott hérna er að það hefur tekist að ná tökum á þessu þannig að hagkerfið innanlands og samfélagið er að komast í eðlilegt horf,“ segir Gylfi. „Og það má alls ekki gerast eins og hefur gerst svo oft í sögunni hér að hagsmunir fárra verði til þess að fleiri séu settir í hættu.“

Samdrátturinn fært okkur til ársins 2016

Gylfi telur að hag­kerfið geti náð sér á strik þó svo að hingað komi ekki fjöldi ferðamanna á þessu ári. Innlend neysla landsmanna hafi dregið úr samdrætti og myndi gera það áfram. „Samdráttur í landsframleiðslu er 8% á þessu ári, og það er vel hægt að búa við hann, hann færir okkur bara aftur til 2016. Vandinn er sá að hann bitnar mjög mikið á hluta af þjóðinni, þeim sem að unnu í ferðaþjónustu. Þetta eru oft ungt fólk og innflytjendur,“ segir Gylfi. Kjör annarra hafi skerst mun minna eða jafnvel ekkert. Þetta auki ójöfnuð. Nær væri að koma til móts við þá sem verst urðu úti með öðrum hætti.

Þá sé ekki víst að það auki hagvöxt að opna landið. Þó að erlendir ferðamenn komi inn með gjaldeyri sé hætt við að Íslendingar fari með fjármuni úr landi á móti. Þá geti kostnaðarsöm sýnataka og hættan á tveggja vikna sóttkví fælt ferðamenn frá. „Þegar að það er svona mikil óvissa þá er alltaf skynsamlegt að taka mörg, lítil skref,“ segir Gylfi, og bendir á að læknar séu ekki sammála um hvernig fara skuli að.

Ertu að leggja til að fresta opnun landsins? „Það að bíða hefur gildi,“ segir Gylfi. „Þetta eru svona almannagæði að geta búið í landi þar sem að er ekki farsótt, þar sem að fólk getur mætt í vinnu, farið út að borða, það getur hist. Og þessi almannagæði eru svo mikilvæg að maður má passa sig að gera ekkert sem að stefnir þeim í voða.“