Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Páll vill greiða milljarðinn fyrir júlíbyrjun

Mynd með færslu
 Mynd: Ásvaldur Kristjánsson - Landspítali
Páll Matthíasson forstjóri Landspítala hefur lagt til við stjórnvöld að álagsgreiðslur, sem heilbrigðisstarfsfólki hafði verið lofað vegna framlags síns í COVID-19 faraldrinum, verði greiddar út fyrir næstu mánaðamót. Þetta sagði Páll í Kastljósi kvöldsins.

Páll var þar gestur Jóhönnu Vigdísar Hjaltadóttur.

Hún spurði Pál um greiðslurnar, sem samtals nema milljarði, hverjir ættu að fá þær og hvenær stæði til að greiða þær út. Páll sagði að forstjórar heilbrigðisstofnana hefðu fundað um hvernig best væri að úthluta fénu. Spurður hvers vegna ekki væri þegar búið að því svaraði hann að um væri að ræða flókið verkefni. „En við höfum sent tillögu okkar til stjórnvalda,“ sagði Páll og bætti við að hann teldi mjög mikilvægt að gengið yrði frá greiðslum fyrir 1. júlí og sagðist vona að það yrði að veruleika.

Ekki bara til þeirra sem hafa verið útsettir beint

Páll sagði að greiðslurnar ættu ekki einungis að ná til þeirra sem hefðu verið útsettir beint fyrir veirunni, fjöldi annarra heilbrigðisstarfsmanna hefði verið undir miklu álagi og nefndi þar þá sem starfa á rannsóknarstofum. Margir hefðu lagt á sig ómælda vinnu á bak við tjöldin til að bregðast við, þó þeir hefðu ekki verið í beinum samskiptum við sjúklinga. 

Hér er hægt að horfa á Kastljós kvöldsins

„Upphæð hennar (umbunarinnar) er með þeim hætti að við teljum að það ætti að vera hægt að veita sem flestum eitthvað,“ sagði Páll.