Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Óskar Guðna til hamingju með „Kim Jong-un könnunina“

04.06.2020 - 18:11
guðmundur franklín jónsson gúndi forsetakosningar forsetaframbjóðandi
 Mynd: Rúv.is/Guðmundur Bergkvist
Guðmundur Franklín Jónsson forsetaframbjóðandi kallaði Þjóðarpúls Gallup „Kim Jong-un skoðanakönnun“ þegar fréttastofa óskaði eftir viðbrögðum við niðurstöðum úr könnuninni, sem birtar voru í gær.  

Guðni Th. Jóhannesson mældist með yfirburðafylgi. 90,4 prósent sögðust styðja framboð hans til forseta en 9,6 prósent sögðust styðja Guðmund Franklín. Forsetakosningar fara fram 27. júní. Þetta er fyrsta fylgiskönnunin sem kannanafyrirtækin gera fyrir þessar kosningar.

Fréttastofa óskaði eftir viðbrögðum forsetaframbjóðendanna við niðurstöðum könnunarinnar. Guðni vildi ekki tjá sig. Guðmundur Franklín sagði engan þjóðarleiðtoga njóta eins mikils stuðnings og Guðni og kallaði skoðanakönnunina „Kim Jong-un könnun“. Hann sagðist óska Guðna innilega til hamingju með stuðninginn.

Samkvæmt könnuninni, sem gerð var dagana 29. maí til 3. júní, nýtur Guðni 100 prósenta fylgis meðal þeirra sem styðja Samfylkinguna, Viðreisn og Pírata. Rúmlega helmingur stuðningsmanna Miðflokksins styður Guðmund Franklín Jónsson. Þá nýtur Guðni hlutfallslega meira fylgis meðal kvenna en karla, 95 prósent kvenna styðja hann en 86 prósent karla.

 
hildurmj's picture
Hildur Margrét Jóhannsdóttir
Fréttastofa RÚV