Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Norrænufarþegar vilja skjót svör um verklag skimunar

04.06.2020 - 12:47
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Mörg hundruð farþegar ætla að sigla til landsins með Norrænu eftir 15. júní og þrýsta mjög á svör við því hvernig skimun verður háttað. Smyril Line  segir marga íhuga afbóka verði kerfið of flókið eða kostnaðarsamt. Þau mál þurfi að komast á hreint sem fyrst.

Skoðuðu aðstæður í skipinu

Fulltrúar Almannavarnanefndar Austurlands fóru um borð í Norrænu í Seyðisfjarðarhöfn á þriðjudag til að kynna sér aðstæður og mögulega tilhögun skimunar. Fyrsta ferð Norrænu eftir svokallaða opnun landsins verður í þar næstu viku og eiga farþegar að stíga á skipsfjöl í Hirtshals í Danmörku 13. júní, eftir níu daga. Sumir sem þurfa að keyra frá Þýskalandi þurfa svör sem fyrst.

Linda Björk Gunnlaugsdóttir, framkvæmdastjóri Smyril Line á Íslandi, segir að um 200 manns eigi bókað far í þessa ferð og 350 í þá næstu. Fólkið sé í startholunum að afbóka og þrýsti mjög á Smyril Line um svör við því hvort allt verði klárt á Seyðisfirði til skimunar 16. júní. Fólk vilji vita hvernig skimun fari fram, hvort og hve mikið hún kosti og hvernig bið eftir niðurstöðum verði. Fáir virðist hafa áhyggjur af því hvað gerist ef viðkomandi reynist smitaður.

Vilja geta gefið farþegum nákvæm svör

Til að róa áhyggjufulla farþega hefur Smyril Line gefið lengri afbókunarfrest og sagt fólki að líklega verði kerfið einfalt og öruggt. Best væri ef nákvæmt verklag lægi fyrir í vikulok. Eftir því sem fréttastofa kemst næst er aðgerðastjórn almannavarnanefndar Austurlands að leggja lokahönd á upplýsingar sem nýtast þeim sem ráða tilhögun skimunar.

Smyril Line fór í kynningarherferð í Danmörku um leið og opnað var fyrir óhindraðar ferðir Færeyinga og Dana til Íslands og segir Linda að það sé strax farið að skila talsvert af bókunum í júlí, ágúst og september.

Sérstök sóttvarnaherbergi um borð

Annan júlí eru yfir 600 manns væntanlegir með skipinu sem tekur mest 1400 farþega. Smyril Line ætlar að viðhafa allar sóttvarnarráðstafanir um borð í sumar og sérstök herbergi verða frátekin fyrir fólk sem kann að sýna einkenni á leiðinni. Þetta er gert til að síður þurfi að setja farþega í sóttkví þó samfarþegi greinist.

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV